Föstudagur 30. ágúst 2019

Sr. Þráinn Haraldsson kjörinn sóknarprestur

 

Kjörnefnd Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalls hefur valið
sr. Þráin Haraldsson sem sóknarprest úr hópi umsækjenda um prestakallið.

Sr. Þráinn hefur verið starfandi prestur við Garðaprestakall á Akranesi frá árinu 2015 og settur sóknarprestur þar frá því í desember í fyrra og sömuleiðis í hið nýja prestakall, Garða-og Hvalfjarðarstrandarprestakall, frá því í vor.

Sr. Þráinn er fæddur 29. maí 1984 og lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 2004; sama ár lauk hann 6. stigi í einsöng frá söngskólanum í Reykjavík. Hann lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 2009, síðar prófi frá Endurmenntun H.Í., í sálgæslu barna og unglinga. Þá stundaði hann nám við Misjonshøgskolen 2014-2015.

Hann var vígður í Dómkirkjunni í Reykjavík til prestsþjónustu í Noregi og gegndi henni þar á árunum 2011-2015.

Sr. Þráinn á fjölbreytilegan feril að baki í kristilegu starfi bæði hér heima og í Noregi.

Kona sr. Þráins er Erna Björk Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur og eiga þau þrjú börn.

Umsóknarfrestur rann út 25. júní s.l.

Biskup Íslands mun skipa í embættið í samræmi
við niðurstöður kjörnefndar.Miðvikudagur 17. apríl 2019

Fermingum lokið

Um helgina lauk fermingarathöfnum frá Akraneskirkju. Fermd voru rúmlega 90 ungmenni og voru athafnirnar sjö talsins. Þetta voru fallegar stundir sem sr. Þráinn Haraldsson og sr. Jón Ragnarsson höfðu umsjón með ásamt Helgu Sesselju Ásgeirsdóttur kirkjuverði.  Kór Akraneskirkju söng undir sjórn Sveins Arnars organista. Forsöngvarar voru kórfélagarnir Halldór Hallgrímsson og Ingþór Bergmann Þórhallsson. Kristín Sigurjónsdóttir lék á fiðlu en hún er einnig félagi í kórnum. 

 Laugardagur 13. apríl 2019

Opið hús

Miðvikudaginn 10. apríl kl. 13.30 verður opið hús fyrir eldri borgara. Að venju verður spilað bingó en eftir kaffi og spjall mun Halldór Hallgrímsson mæta svæðið. Halldór er söngmaður góður og ekki síðri sögumaður og það má því búast við góðri skemmtun í Vinaminni. Miðvikudagur 27. mars 2019

Sr. Eðvarð Ingólfsson kveður Akranes

Eftir tæp 22 ár í þjónustu sem sóknarprestur á Akranesi þá lætur sr. Eðvarð Ingólfsson af störfum um næstu mánaðamót. Eðvarð vígðist til Skinnastaðar í Öxarfirði í febrúar 1996 en færði sig yfir á Akranes á aðventunni árið eftir. Það verður vissulega mikill missir af Eðvarði sem nú tekur að sér annars konar prestsþjónustu en áður af heilsufarsástæðum. Hann greindist með Parkinsonsjúkdóm fyrir 10 árum. Hann verður hér eftir sérþjónustuprestur.

“Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja þessum tímamótum“ segir Eðvarð. „Vissulega eru það vonbrigði að ég skuli vera með sjúkdóm sem háir mér að sumu leyti í lífi og starfi en ég á ekki annarra kosta völ en reyna að aðlagast honum. Gera eins gott úr hlutunum og hægt er. Ég verð bara að lifa við þetta. Til dæmis er hægt er að fara í Pollýönnu leik og hugsa til þess að þetta hefði geta orðið verra.“

Eðvarð segir þó að það sé óneitanlega svolítill léttir að láta af störfum á Akranesi enda fylgi því mikið annríki að Þjóna í svo fjölmennu prestakalli. „Það er líka öllum hollt að skipta um vettvang á starfsævinni,“ segir Eðvarð. „Ég mun, sem sérþjónustuprestur, sinna ýmsum þeim verkefnum sem mér verða falin.  Við hjónin höfðum byggt okkur hús í Hveragerði, í uppeldisbæ eiginkonunar, áður en þetta kom til. Tengdaforeldrar mínir eiga þar heima og mörg skyldmenni hennar, svo að við eigum þar talsvert bakland“.

Ritstörfin
Eðvarð hefur ásamt starfi sínu sem prestur verið afkastamikill rithöfundur og gefið út alls 9 barna- og unglingabækur og 6 ævisögur. Einnig starfaði hann í nokkur ár sem dagskrárgerðarmaður á Útvarpinu, fyrst á Rás eitt og síðan Rás 2. Einnig var hann ritstjóri tímaritsins Æskunnar á níunda áratuginum. Líklegt má því teljast að skrifin verði honum huglæg á komandi árum.

„Ég hef haft það fyrir venju að skrifa ýmis skemmtileg orðatiltæki eða tilsvör sem ég hef heyrt í starfinu. Maður kynnist mörgum og það er ýmislegt að gerast í svona fjölmennu prestakalli. Við prestar erum t.d oft beðnir um að flytja hugvekjur í jólahlaðborðum og við önnur tækifæri. En ég er einnig beðinn um að flytja frásagnir í léttum dúr. Þá kemur sér vel að hafa skráð hjá sér skemmtileg atvik.“

„Lærdómstími ævin er“
Í prestþjónustu, sem spannar aldarfjórðung, hefur Eðvarð verið farsæll í starfi.
„Maður kemst langt á því að reynast öðrum vel og vera góð manneskja. Þegar maður er nýbyrjaður í prestskap, þá er maður kannski upptekinn við að gera hlutina rétt. En það skiptir þó meira máli að vera sanngjarn og umburðarlyndur við aðra. Mikilvægt er að forðast hroka og vera trúr sinni samvisku og guðsvilja,“ segir Eðvarð. „Við prestarnir erum ekki á eigin forsendum í þjónustunni heldur látum trúnna leiða okkur. Erfiðast finnst mér í preststarfinu að tilkynna svipleg andlát. Maður venst því aldrei. Stundum þarf ekki að hafa mörg orð um hlutina, oft er gott að þegja með fólki. Það er nærveran og einlægnin sem skiptir mestu máli.“

Flutningar framundan
Eðvarð hlakkar til að flytjast til Hveragerðis.
„Ég kem örugglega til með að sakna Akranesbæjar. Þaðan eru margar góðar minningar. En ég er þannig gerður að ég hugsa yfirleitt ekki mikið um að sakna einhvers. En ég veit að það er líka gott fólk í Hveragerði. Það verður gott að búa nálægt Heilsuhælinu ef ég þarf að hressa mig við. Þar er líka gott bakarí enda er ég mikill sælkeri og mun nýta mér það,“ segir sr. Eðvarð Ingólfsson að lokum.

Viðtalið birtist á vef Þjóðkirkjunnar, 22. mars síðastliðinn.Mánudagur 28. janúar 2019

Breyting á dagskrá

Sú breyting hefur orðið á fyrirbænastundum að þær verða framvegis á miðvikudögum kl. 12.15.  Áður voru þær á fimmtudögum.
Eftir stundina er boðið upp á léttar veitingar í Vinaminni eins og verið hefur.

Einnig hafa opnu húsin fyrir eldri borgara verið færð yfir á miðvikudaga en þau verða annan miðvikudag í mánuði.Þriðjudagur 22. janúar 2019

Nýr geisladiskur Kórs Akraneskirkju

 

Kór Akraneskirkju gaf út geisladisk í desember og fagnaði því með útgáfutónleikum í Vinaminni laugardaginn 15. desember. Á diskinum má finna úrval kórlaga sem kórinn hefur flutt í gegnum tíðina. Diskurinn hefur ekki að geyma jólatónlist en allar aðrar árstíðir koma við sögu. Textar eru á íslensku og má finna ljóð og þýðingar eftir Akurnesingana Guðmund Kristjánsson, Halldór Hallgrímsson, Jón Gunnar Axelsson, Jónínu Björgu Magnúsdóttur og Sigurbjörgu Þrastardóttur.

Kórinn hefur fengið gott tónlistarfólk til liðs við sig og eru það Viðar Guðmundsson sem leikur á píanó, Jón Rafnsson kontrabassaleikari og svo eru það kórfélagarnir Kristín Sigurjónsdóttir sem leikur á fiðlu, Eyjólfur Rúnar Stefánsson sem leikur á gítar og einsöng syngur Halldór Hallgrímsson.

Upptökumaður var Håkan Ekman og um upptökustjórn sá Eyþór Ingi Jónsson, organisti við Akureyrarkirkju. Kolbrún Sigurðardóttir sá um hönnun umslags.

Hægt er að kaupa diskinn í verslununum Eymundsson og Omnis á Akranesi en einnig er hægt að panta eintök með því að senda töluvpóst á korakraneskirkju960@gmail.com

 Föstudagur 26. janúar 2018

Nýárstónleikar Kórs Akraneskirkju

Kór Akraneskirkju - Bíóhöllin 2018

Kór Akraneskirkju bauð upp á  nýárstónleika sem fram fóru fyrir fullu húsi í Bíóhöllinni 6. janúar síðastliðinn.

Efnisskráin á tónleikunum var fjölbreytt þar sem þekkt dægurlög voru flutt ásamt nýju efni þar sem hinn kunni lagahöfundur hljómsveitarinnar ABBA, Benny Anderson, kom m.a. við sögu. Íslensku dægurlögin voru í útsetningum eftir Ríkarð Örn Pálsson, Magnús Ingimarsson og Jón Sigurðsson. Kórinn söng lög á borð við Söknuð, Ágústnótt, Bláu augun þín og fleiri þekkt alþekkt lög.

Eftir hlé var fluttur lagaflokkurinn Feel the spirit sem inniheldur sjö afrísk-ameríska söngva í útsetningu enska tónskáldsins John Rutter.  Var gerður góður rómur að flutningnum enda lögin nokkuð þekkt og útsetningar glæsilegar.

Kammersveit sem skipuð var einvalaliði hljóðfæraleikara studdi vel við kórinn og um tónsprotann hélt Guðmundur Óli Gunnarsson.

Auður Guðjohnsen mezzosópran var einsöngvari  og kynnir kvöldsins var fjölmiðlakonan Margrét Blöndal.

 Með því að smella á myndina má sjá umfjöllun Skagafrétta frá tónleikunum og einnig myndir.

 

 
 


Mánudagur 10. apríl 2017

Kór Akraneskirkju með tónleika í Seltjarnarneskirkju

St John Passion eða Jóhannesarpassía er nýlegt kórverk sem samið var árið 2013. Textinn er tekinn beint upp úr Jóhannesarguðspjalli og fjallar um handtöku og krossfestingu Jesú Krists. Sagan er sögð af guðspjallamanni sem sunginn er af tenór og hlutverk Jesú og Pílatusar eru sungin af bassa og baríton. Inn í verkið fléttar tónskáldið glæsilegum kórköflum þar sem sungnir eru sálmar og ljóð sem tengjast þessum dramatísku atburðum.
Þetta er gríðarlega áhrifamikið mikið verk og er farið að njóta mikilla vinsælda um allan heim. Akurnesingurinn Guðmundur Kristjánsson hefur séð um efnislegar þýðingar og verður íslenskum texta varpað á skjá á meðan tónleikum stendur.

Miðasala á tix.is
https://tix.is/is/event/3958/bob-chilcott-johannesarpassia/

St John Passion - Plaggat án kórmyndar 12.4 2017