Föstudagur 24. apríl 2020

Klukkuturninn í Görðum

Ása Birna Viðardsdóttir

Fyrsta skólfustungan
að klukkuturninum í Görðum, var tekin að kvöldi 3. júlí 1955. Hana tók sr. Jón M. Guðjónsson en hann var frumkvöðull að byggingunni.  Í huga sr. Jóns átti hlutverk turnsins að vera það, að geyma klukkur sem hringt væri við greftranir og að þjóna sem minnismerki um kirkjuhald í Görðum allt frá fyrstu öldum.  Gerði hann m.a. frumskissur af turninum og lagði fyrir sóknarnefnd.  Var samþykkt að ræða þessar framkvæmdir og kom Jóhann B. Guðnason fyrrverandi byggingarfulltrúi að verkinu og útfærði teikningar með sr. Jóni. Þann 8. maí 1955 samþykkti sóknarnefnd að heimila bygginguna og hófst undirbúningur þá þegar.

Við grunngröftinn
kom upp fjöldi mannabeina og taldi Jóhann Pjetursson byggingarmeistari að hann hefði getað greint 7-8 kistulög í jarðvegi áður en komið var niður á óhreyfða mold. Allar líkamsleifar voru settar í öskjur og jarðsettar á ný í garðinum. Þessar aðgerðir vöktu óhug hjá mörgum, voru umdeildar og mikið til umræðu meðal bæjarbúa á þessum tíma.

Víglsan
Föstudaginn 12. júlí 1958 var turninn síðan vígður af biskupi Íslands, dr. Ásmundi Guðmundssyni. Veður var fagurt en athöfnin ekki margmenn. Kirkjukórinn söng við opinn glugga á efstu hæð turnsins. Biskup flutti vígsluræðu sína og síðan var klukkum turnsins hringt í þrjár mínútur. Einnig talaði prófastur og rakti sögu Garða og Garðakirkju auk þess sem sóknarnefndarmaðurinn Jón Sigmundsson tók til máls og rifjaði upp minningar frá bernskuárum sínum í Görðum. Yfir þessari stund hvíldi helgi og friður og var öllum viðstöddum ógleymanleg.
Heimildir teknar upp úr bókinni „Akraneskirkja 1896-1996“ sem Gunnlaugur Haraldsson skrifaði.Þriðjudagur 21. apríl 2020

Orgelhreinsun

Í vikunni hófst vinna við að hreinsa orgel Akraneskirkju. Orgelið, sem var smíðað af Bruno Christensen & Sønner Orgelbyggeri í Danmörku er orðið 32 ára gamalt og því kominn tími á yfirhalningu.

Sjá nánar hérÞriðjudagur 14. apríl 2020

Sigurhátíð sæl og blíð

Helgistund frá Akraneskirkju verður streymt á páskadag kl. 11.

Sr. Þráinn Haraldsson og sr. Þóra Björg Sigurðardóttir leiða stundina. Félagar úr Kór Akraneskirkju syngja og organisti er
Sveinn Arnar Sæmundsson.

Í meðfylgjandi hlekk hér að neðan, má hlýða á stundina sem Heiðar Mar Björnsson tók upp fyrir Akraneskirkju.

Gleðilega páska!

PáskahelgistundFöstudagur 20. mars 2020

Fyrirkomulag útfara í samkomubanni

Nú er samkomubann á Íslandi. Kirkjulegar athafnir eru meðal þess sem bannið nær til. Útfarir mega því aðeins fara fram með ákveðnum skilyrðum. Annars vegar felast þau í því að fjöldi viðstaddra er takmarkaður en hins vegar verða að vera tveir metrar hið minnsta á milli kirkjugesta.

Vegna þessa banns verður fyrirkomulag útfara við Akraneskirkju með þessum hætti á meðan bannið er í gildi:

1) Útfarir verða ekki opnar almenningi. Kistulagningar verða á sama stað í beinum tengslum við útfarirnar.

2) Ekki er hægt að taka við fleiri gestum í kirkjuna en 35. Fjölskyldur af sama heimili mega sitja saman. Kirkjuverðir raða niður í kirkjuna í samráði við aðstandendur.

3) Unnt er að streyma athöfnum í Iðnskólann og Vinaminni. Þar eru sæti fyrir ca 35 mann á hvorum stað. Einnig er hægt að streyma útförum á lokað svæði á netinu.

4) Erfidrykkjur í Safnaðarheimili eru ekki mögulegar.

Prestar Akraneskirkju munu haga þjónustu sinni og verkaskiptingu þannig að engin óþarfa áhætta sé tekin og í sem bestu samræmi við tilgang samkomubannsins.

Þessar aðstæður krefjast góðs samstarfs og tillitssemi. Starfsfólk Akraneskirkju mun gera allt sem í þess valdi stendur til að gera fólki unnt að kveðja ástvini fallega og virðulega á þessum sérstöku tímum sem vonandi verða fljótir að líða. Nánri tilhögum útfara er ætíð í samstarfi við aðstandendur.Mánudagur 9. mars 2020

Orgelsaga

Fyrsta orgelið sem kom í kirkju á Akranesi var harmonium og var staðsett í Garðakirkju. Kom það árið 1880. Árið 1902 var keypt harmonium orgel í Akraneskirkju og var það úr dánarbúi barónsins frá Hvítárvöllum. Hið eldra var selt. Orgelið sem hér sést, kom í kirkjuna árið 1920 og þjónaði til ársins 1960.
Var það fengið með frjálsum samskotum safnaðarfólks.
Það er nú vistað í Byggðasafninu að Görðum.

 Miðvikudagur 5. febrúar 2020

Gestrisni og glaðværð

Vísitasíu biskups Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, um Garða- og Saurbæjarprestakalla lauk á mánudaginn.

„Vísatasían var mjög ánægjuleg og fróðleg,“ sagði sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, þegar kirkjan.is innti hana eftir því hvernig hefði gengið, og biskup bætti við: „og ákaflega vel heppnuð og móttökur frábærar.“ Nánar má lesa um heimsóknina hér fyrir neðan.

Gefandi samtal…

Gestrisni og glaðværð…Föstudagur 30. ágúst 2019

Sr. Þráinn Haraldsson kjörinn sóknarprestur

 

Kjörnefnd Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalls hefur valið
sr. Þráin Haraldsson sem sóknarprest úr hópi umsækjenda um prestakallið.

Sr. Þráinn hefur verið starfandi prestur við Garðaprestakall á Akranesi frá árinu 2015 og settur sóknarprestur þar frá því í desember í fyrra og sömuleiðis í hið nýja prestakall, Garða-og Hvalfjarðarstrandarprestakall, frá því í vor.

Sr. Þráinn er fæddur 29. maí 1984 og lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 2004; sama ár lauk hann 6. stigi í einsöng frá söngskólanum í Reykjavík. Hann lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 2009, síðar prófi frá Endurmenntun H.Í., í sálgæslu barna og unglinga. Þá stundaði hann nám við Misjonshøgskolen 2014-2015.

Hann var vígður í Dómkirkjunni í Reykjavík til prestsþjónustu í Noregi og gegndi henni þar á árunum 2011-2015.

Sr. Þráinn á fjölbreytilegan feril að baki í kristilegu starfi bæði hér heima og í Noregi.

Kona sr. Þráins er Erna Björk Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur og eiga þau þrjú börn.

Umsóknarfrestur rann út 25. júní s.l.

Biskup Íslands mun skipa í embættið í samræmi
við niðurstöður kjörnefndar.Miðvikudagur 17. apríl 2019

Fermingum lokið

Um helgina lauk fermingarathöfnum frá Akraneskirkju. Fermd voru rúmlega 90 ungmenni og voru athafnirnar sjö talsins. Þetta voru fallegar stundir sem sr. Þráinn Haraldsson og sr. Jón Ragnarsson höfðu umsjón með ásamt Helgu Sesselju Ásgeirsdóttur kirkjuverði.  Kór Akraneskirkju söng undir sjórn Sveins Arnars organista. Forsöngvarar voru kórfélagarnir Halldór Hallgrímsson og Ingþór Bergmann Þórhallsson. Kristín Sigurjónsdóttir lék á fiðlu en hún er einnig félagi í kórnum. 

 Laugardagur 13. apríl 2019

Opið hús

Miðvikudaginn 10. apríl kl. 13.30 verður opið hús fyrir eldri borgara. Að venju verður spilað bingó en eftir kaffi og spjall mun Halldór Hallgrímsson mæta svæðið. Halldór er söngmaður góður og ekki síðri sögumaður og það má því búast við góðri skemmtun í Vinaminni. Miðvikudagur 27. mars 2019

Sr. Eðvarð Ingólfsson kveður Akranes

Eftir tæp 22 ár í þjónustu sem sóknarprestur á Akranesi þá lætur sr. Eðvarð Ingólfsson af störfum um næstu mánaðamót. Eðvarð vígðist til Skinnastaðar í Öxarfirði í febrúar 1996 en færði sig yfir á Akranes á aðventunni árið eftir. Það verður vissulega mikill missir af Eðvarði sem nú tekur að sér annars konar prestsþjónustu en áður af heilsufarsástæðum. Hann greindist með Parkinsonsjúkdóm fyrir 10 árum. Hann verður hér eftir sérþjónustuprestur.

“Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja þessum tímamótum“ segir Eðvarð. „Vissulega eru það vonbrigði að ég skuli vera með sjúkdóm sem háir mér að sumu leyti í lífi og starfi en ég á ekki annarra kosta völ en reyna að aðlagast honum. Gera eins gott úr hlutunum og hægt er. Ég verð bara að lifa við þetta. Til dæmis er hægt er að fara í Pollýönnu leik og hugsa til þess að þetta hefði geta orðið verra.“

Eðvarð segir þó að það sé óneitanlega svolítill léttir að láta af störfum á Akranesi enda fylgi því mikið annríki að Þjóna í svo fjölmennu prestakalli. „Það er líka öllum hollt að skipta um vettvang á starfsævinni,“ segir Eðvarð. „Ég mun, sem sérþjónustuprestur, sinna ýmsum þeim verkefnum sem mér verða falin.  Við hjónin höfðum byggt okkur hús í Hveragerði, í uppeldisbæ eiginkonunar, áður en þetta kom til. Tengdaforeldrar mínir eiga þar heima og mörg skyldmenni hennar, svo að við eigum þar talsvert bakland“.

Ritstörfin
Eðvarð hefur ásamt starfi sínu sem prestur verið afkastamikill rithöfundur og gefið út alls 9 barna- og unglingabækur og 6 ævisögur. Einnig starfaði hann í nokkur ár sem dagskrárgerðarmaður á Útvarpinu, fyrst á Rás eitt og síðan Rás 2. Einnig var hann ritstjóri tímaritsins Æskunnar á níunda áratuginum. Líklegt má því teljast að skrifin verði honum huglæg á komandi árum.

„Ég hef haft það fyrir venju að skrifa ýmis skemmtileg orðatiltæki eða tilsvör sem ég hef heyrt í starfinu. Maður kynnist mörgum og það er ýmislegt að gerast í svona fjölmennu prestakalli. Við prestar erum t.d oft beðnir um að flytja hugvekjur í jólahlaðborðum og við önnur tækifæri. En ég er einnig beðinn um að flytja frásagnir í léttum dúr. Þá kemur sér vel að hafa skráð hjá sér skemmtileg atvik.“

„Lærdómstími ævin er“
Í prestþjónustu, sem spannar aldarfjórðung, hefur Eðvarð verið farsæll í starfi.
„Maður kemst langt á því að reynast öðrum vel og vera góð manneskja. Þegar maður er nýbyrjaður í prestskap, þá er maður kannski upptekinn við að gera hlutina rétt. En það skiptir þó meira máli að vera sanngjarn og umburðarlyndur við aðra. Mikilvægt er að forðast hroka og vera trúr sinni samvisku og guðsvilja,“ segir Eðvarð. „Við prestarnir erum ekki á eigin forsendum í þjónustunni heldur látum trúnna leiða okkur. Erfiðast finnst mér í preststarfinu að tilkynna svipleg andlát. Maður venst því aldrei. Stundum þarf ekki að hafa mörg orð um hlutina, oft er gott að þegja með fólki. Það er nærveran og einlægnin sem skiptir mestu máli.“

Flutningar framundan
Eðvarð hlakkar til að flytjast til Hveragerðis.
„Ég kem örugglega til með að sakna Akranesbæjar. Þaðan eru margar góðar minningar. En ég er þannig gerður að ég hugsa yfirleitt ekki mikið um að sakna einhvers. En ég veit að það er líka gott fólk í Hveragerði. Það verður gott að búa nálægt Heilsuhælinu ef ég þarf að hressa mig við. Þar er líka gott bakarí enda er ég mikill sælkeri og mun nýta mér það,“ segir sr. Eðvarð Ingólfsson að lokum.

Viðtalið birtist á vef Þjóðkirkjunnar, 22. mars síðastliðinn.