Þriðjudagur 3. maí 2016

Fermingarfræðsla 2016 – 2017

Nú er hafinn undirbúningur fyrir fermingarfræðslu næsta vetrar. Bréf hefur verið sent á öll börn í söfnuðinum sem eru fædd árið 2003. Þeim og foreldrum þeirra er boðið á kynningarfund um fermingarfræðsluna þriðjudaginn 3. maí kl. 18:00. Þar verður farið yfir dagskrá næsta vetrar, en hún verður með öðru sniði en undanfarinn ár.  Að fundi loknum verður opnað fyrir skráningu í fermingarfræðsluna hér á vefnum.

Bréfið sem sent var til foreldra má lesa hér að neðan.

Ef barnið þitt hefur ekki fengið bréf en hyggst taka þátt í fermingarfræðslu í Akraneskirkju ert þú að sjálfsögðu velkomin(n) á fundinn.

Fermskrán2016-2017Þriðjudagur 22. mars 2016

Fermingar vorið 2016


Fyrstu hópar fermingarbarna á Akranesi voru fermdir fyrir og eftir hádegi, sunnudaginn 20. mars sl. Þá voru þessar myndir teknar. Alls munu 78 ungmenni fermast nú á vordögum í sjö hópum. Síðasta fermingarathöfnin verður 17. apríl.

Með fermingarbörnunum á þessum myndum eru þeir sr. Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur (t.v.)og sr. Þráinn Haraldsson prestur (t.h.). Þeir ferma saman.Mánudagur 29. febrúar 2016

Guðsþjónusta í Akranesvita

Sunnudaginn 28. febrúar var haldin guðsþjónusta í Akranesvita.
Sr. Þráinn Haraldsson þjónaði.
Guðsþjónustan mun vera sú fyrsta sem haldin er í vitanum og var hún vel sótt. Þetta var fyrsti dagskrárliðurinn í Kirkjuviku sem Akraneskirkja stendur fyrir. Sjá nánar hér á síðunni .
Einnig er Akraneskirkja með síðu á facebook en þar er hægt að fylgjast enn betur með ákveðnum viðburðum.

Akranesviti - Vitamessa 2016 2

Akranesviti - Vitamessa 2016

Akranesviti - Vitamessa 2016 1Mánudagur 14. desember 2015

Hátíðarnótt í Vinaminni

Andrés Þór Gunnlaugsson gítarleikari, Karl Olgeirsson píanóleikari og Jón Rafnsson kontrabassaleikari, leika af nýútkomnum geisladiski sem nefnist Hátíðarnótt. Á tónleikunum flytja þeir félagar jólalög og sálma sem hafa fylgt íslensku jólahaldi í gegnum áratugina í fallegum jazzútsetningnum. Meðal laga á disknum eru; Sjá himins opnast hlið, Það aldin út er sprungið, Jólasveinar ganga um gólf,
Hátíð fer að höndum ein og Heims um ból
Kaffi og jólasmákökur í boði Kalmans – listafélags.

Tónleikarnir eru í boði Akraneskirkju.
Því er aðgangseyrir enginn og allir hjartanlega velkomnir.Þriðjudagur 8. september 2015

Barnastarf Akraneskirkju og KFUM/KFUK

Brátt hefst barnastarf kirkjunnar og KFUM og KFUK.

Sunnudagskólinn fer fram alla sunnudag kl. 11 í kirkjunni.

Kirkjuprakkarar er starf fyrir 6 – 9 ára börn. Fyrir áramót verða 5 samverur á laugardögum kl. 10 – 11.  Samverurnar fara fram í Iðnskólahúsinu bak við safnaðarheimilið Vinaminni. Það er skemmtileg dagskrá með leikjum, þrautum og ýmsu öðru ásamt fræðslu. Umsjónarmaður starfsins er Írena Rut Jónsdóttir ásamt aðstoðarleiðtogum. Samverur eru eftirtalda laugardaga:

26. sept., 17.okt., 7.nóv., 28.nóv og 5.desember. 

Leikjafjör er fyrir 10 – 12 ára börn. Fyrir áramót verða 6 samverur á miðvikudögum kl. 16:15 – 17:15.  Húsið opnar kl. 16:00. Dagskráin verður spennandi, skemmtileg og sniðin að aldurhópnum.  Á hverri samveru er fræðsla. Starfið fer fram í Iðnskólahúsinu.  Umsjónarmenn starfsins eru Aníta Einardóttir og Sigrún Þorbergsdóttir. Samverur eru eftirtalda miðvikudaga:

16.sept., 30.sept., 21.okt., 4.nóv., 25.,nóv. og 9. desember.

Ekkert kostar að taka þátt í starfi kirkjunnar en við biðjum foreldra að skrá börnin til þátttöku í kirkjuprökkurum og leikafjöri.

Skráning fer fram hér.Mánudagur 20. apríl 2015

Kaffihúsakvöld Kórs Akraneskirkju

Kaffihúsakvöld 2015

Kór Akraneskirkju heldur sína árlegu kaffihúsakvöld miðvikudagskvöldið 22. apríl og fimmtudagskvöldið 23. apríl. Dagskráin hefst kl. 20 bæði kvöldin. 

Í boði verður fjölbreytt dagskrá í tali og tónum. Og í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi, þá verður þessum elskum gert hátt undir höfði.

Sérstakir gestir verða þær Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri Akraness og Sigríður Thorlacius söngkona.

Regína kemur í sérstakt „sófaspjall“ og kaffihúsagestir fá að kynnast þessari ágætu konu aðeins betur en hún hefur verið farsæl í starfi á Akranesi. Sigríður Thorlacius mun leyfa gestum að njóta sinnar fallegu söngraddar.  Kórinn flytur flotta söngdagskrá en einnig mun Sigíður syngja með kórnum.

Meðleikari á píanó er Tómas Guðni Eggertsson.

Aðgangseyrir kr. 2.500.
Forsala aðgöngumiða er í Versluninni Bjargi.Miðvikudagur 25. mars 2015

Fyrirlestur um Hallgrím Pétursson

Smári - Kistuorgel Smári og Magnea

 

Smári Ólason hélt áhugaverðan fyrirlestur um Hallgrím Pétursson í Akraneskirkju í gærkvöldi. Magnea Tómasdóttir söng. Góð kvöldstund og eftir dagskrána spunnust upp fínar umræður. Þökkum þeim innilega fyrir komuna.Mánudagur 23. mars 2015

Fermingar í Akraneskirkju 2015

Ljósmynd: Guðni Hannesson

 

Sunnudaginn 22. mars voru 14 ungmenni fermd í Akraneskirkju. Fermingar verða sunnudagana 29. mars, 12. apríl og 19. apríl. Alls verða fermd 94 börn þetta vorið. Guðni Hannesson ljósmyndari tók þessa mynd af fermingarbörnunum þegar þau gengu til kirkju.Laugardagur 21. mars 2015

Hallgrímur Pétursson í Akraneskirkju

Fors_a_b_karinnar_ti (1)

Þriðjudaginn 24. mars n.k. munu Magnea Tómasdóttir söngkona og Smári Ólason tónlistarfræðingur flytja dagskrá í Akraneskirkju um Hallgrím Pétursson og Passíusálma hans. Kynnt verður 93. prentun Passíusálmanna sem kom út nú í mars þar sem „gömlu lögin“ við þá eru sett út fyrir fjögurra radda blandaðan kór gerðar af Smára auk nýrrar textarannsóknar sem hann hefur gert.

Dagskráin hefst kl. 20 og er aðgangur ókeypis!Mánudagur 23. febrúar 2015

Kór Akraneskirkju í Hörpu

Kór Akraneskirkju - Góð kórmynd

Þegar sólin sigri nær!

Kór Akraneskirkju heldur tónleika í Norðurljósasal Hörpu, föstudaginn 27. febrúar kl. 20.
Mikil fjölbreytni einkennir efnisskrána á þessum tónleikum og endurspeglar vel  verkefnaval kórsins. Kórinn hélt sjö tónleika á síðasta ári og nú var farið í að velja úr því efni sem flutt var og búa til efnisskrá.
Óhætt er að segja að farið verði víða um kórtónlistarflóruna. Ensk og íslensk þjóðlög, sænskir og enskir trúarsöngvar og jazzkórlög Tómasar R. munu hljóma í Norðurljósum. Ásamt kórnum kemur  fram einvala lið tónlistarfólks en það eru þau Gunnar Gunnarsson píanóleikari, Tómas R. Einarsson kontrabassaleikari, Ingi Björn Róbertsson trommuleikari, Birgir Þórisson píanóleikari og Kristín Sigurjónsdóttir fiðluleikari. Einsöng syngja Auður Guðjohnsen mezzosópran og kórfélagarnir Jón Gunnar Axelsson tenór og Halldór Hallgrímsson tenór.
Stjórnandi er Sveinn Arnar Sæmundsson.

Kór Akraneskirkju er skipaður góðu söngfólki . Þetta er hópur af ólíku fólki sem kemur saman eftir langan vinnudag og sameinast í samhljómi tónlistarinnar. Sjálfum sér til gleði og ánægju en einnig með það að markmiði að gleðja aðra með söng sínum. Auk þess að sinna kórsöng við athafnir í Akraneskirkju er kórinn einnig mikilvægur hornsteinn í öflugu menningarlífi Skagamanna.

Miðaverð er 3.500 krónur og er miðasala á midi.is

http://harpa.is/dagskra/thegar-solin-sigri-naer-kor-akraneskirkju