Fimmtudagur 12. október 2006

Fermingarundirbúningur hafinn

Fermingarundirbúningur er hafinn í Garðaprestakalli. Næsta vor verða um 100 ungmenni fermd í Akraneskirkju. Fermt verður dagana 22. mars, 29. mars, 12. apríl og 19. apríl. Aðeins ein athöfn verður 22. mars, kl. 14. en  tvær athafnir verða hina fermingardagana, kl. 10,30 og 14.

Fermingarundirbúningur hafinn

Fermingarbörnum er kennt í Grundaskóla á miðvikudögum og í Safnaðarheimilinu Vinaminni á fimmtudögum. Það er einnig liður í fermingarundirbúningi að þau kynnist helgihaldi og félagsstarfi kirkjunnar. Ætlast er til að þau sæki 6 guðsþjónustur yfir vetrartímann og taki þátt í Æskulýðsfélagi kirkjunnar sem starfar á mánudagskvöldum.

Fermingarbörnin sækja árlega námskeið á haustdögum í Skálholti. Um dagsferð er að ræða. Á hverju hausti ganga þau í hús og safna fjármunum handa fátækum í Afríku. Í fyrra söfnuðu Akranesbörn rúmlega 300 þús. kr. Það er stórfé á mælikvarða Afríkubúa!

Fermingarundirbúningi lýkur síðan með knattspyrnukappleik á milli starfsfólks kirkjunnar og fermingarbarna á Merkurtúninu.

Boðið er upp á kók og prins póló á eftir!Mánudagur 9. október 2006

Dagur hjónabandsins í Akraneskirkju

Dagur hjónabandsins

Dagur hjónabandsins verður haldinn hátíðlegur í Akraneskirkju nk. sunnudag, 15. október. Er þetta níunda árið í röð sem guðsþjónusta að hausti er tileinkuð hjónabandinu sérstaklega og hefst hún kl. 14.

Flutt verður stutt prédikun um ástina og kærleikann. Kammerkór Akraness syngur fallega brúðkaupssálma.

Að guðsþjónustu lokinni er öllum kirkjugestum boðið til kaffisamsætis í Safnaðarheimilinu Vinaminni. Þar mun kammerkórinn syngja nokkur ljúf lög til viðbótar.

Þetta er guðsþjónusta sem ástfangin hjón og pör á öllum aldri mega ekki missa af. Nú býður þú ástinni þinni til kirkju! Sýnum hjónabandinu og ástarsambandinu þá ræktarsemi sem það á skilið.

Allir velkomnir!Fimmtudagur 5. október 2006

Raggi Bjarna skemmtir í safnaðarheimilinu

Ragnar Bjarnason
Ragnar Bjarnason

 

Annan fimmtudag í hverjum mánuði yfir vetrartímann er opið hús fyrir eldri borgara í Safnaðarheimilinu Vinaminni – frá kl. 13.30 til 16. Þessar samkomur hafa verið afar vel sóttar fram að þessu, svo að ekki sé meira sagt! Í fyrravetur komu yfir 100 manns hverju sinni.

Fyrst er spiluð félagsvist eða bingó, síðan gert kaffihlé, þá flutt hugvekja og bæn, og eftir það er létt dagskrá í tali og tónum.

Næstkomandi fimmtudag, 12. október, verður fyrsta samvera vetrarins. Spilað verður bingó.

Gestur dagsins verður hinn landskunni dægurlagasöngvari og spaugari, Ragnar Bjarnason. Hann mun skemmta kl. 15.

Allir eru velkomnir!

Gestum er heimilt að koma og fara þegar þeim hentar!Sunnudagur 1. október 2006

Akraneskirkja opnar heimasíðu

Akraneskirkja
Akraneskirkja

Akraneskirkja hefur opnað heimasíðu. Það var gert með viðhöfn í Safnaðarheimilinu Vinaminni eftir guðsþjónustu 1. október sl.

Heiðurskonan, Ragnheiður Guðbjartsdóttir, fyrrum formaður sóknarnefndar og starfsmaður kirkjunnar um árabil, ýtti á hnapp til að varpa síðunni út á veraldarvefinn.

Táknrænt var að fá Ragnheiði til að gera þetta. Hún er komin hátt á níræðisaldur og er af kynslóð sem ekki ólst upp við tölvur. Hún afhenti síðan formanni sóknarnefndar, Þjóðbirni Hannessyni, vefsíðuna til notkunar. Þar mættust fulltrúar tveggja tíma, hins gamla og nýja.

Akurnesingurinn, Bjarni Þór Ólafsson, á heiðurinn að uppsetningu og umbroti þessarar heimasíðu. Hann lagði mikla vinnu og alúð í þetta verk.

Á heimasíðu Akraneskirkju kennir ýmissa grasa. Sjón er sögu ríkari! Gjörið svo vel að kynna ykkur hana!110 ára vígsluafmæli kirkjunnar

vigslubiskup

Þess var minnst í hátíðarguðsþjónustu 20. ágúst sl. að 110 ár eru liðin frá því að Akraneskirkja var vígð. Hún var vígð 23. ágúst 1896. Vígslubiskupinn í Skálholti, hr. Sigurður Sigurðarson, prédikaði.

Sóknarprestur og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur Borgfirðinga, þjónuðu fyrir altari. Sóknarnefndarfólk tók þátt í athöfninni og Kirkjukór Akraness söng.

Að guðsþjónustu lokinni var kirkjugestum boðið til kaffisamsætis í Safnaðarheimilinu Vinaminni. Þar voru kirkjunni afhentar veglegar gjafir frá Akraneskaupstað og Kirkjunefnd kvenna í tilefni tímamótanna. Fjölmenni var við þessa hátíðarguðsþjónustu og veður með allrabesta móti, einn af hlýjustu og sólríkustu dögum sumarsins!