Miðvikudagur 3. september 2014

Fermingar 2015

fermingarborn2007-1

Fermt verður fjóra sunnudaga, 22. mars, 29. mars (pálmasunnudag), 12. apríl og 19. apríl. Aðeins ein athöfn verður 22. mars, kl. 14, en tvær athafnir verða hina fermingardagana,
kl. 10.30 og 14.
Send hafa verið út skráningarblöð til barnanna og á að skila þeim á skrifstofu Akraneskirkju, mánudaginn 8. september eða þriðjudaginn 9. september.
Skrifstofan er opin frá kl. 11 til 14 báða dagana.Föstudagur 8. mars 2013

Ferming fyrir 36 árum

Á Æskulýðsdegi Akraneskirkju 3. mars sl. flutti Sigríður Kr. Valdimarsdóttir stutta hugvekju, þar sem hún rifjaði upp fermingu sína og fermingarundirbúninginn.
Sigríður hefur starfað í sóknarnefnd Akraneskirkju um nokkurra ára skeið.

SiggaVald-228x300
Sigríður Valdimarsdóttir

Þegar séra Eðvarð sendi mér tölvupóst í vikunni og bað mig að rifja upp fermingardaginn og fermingarundirbúninginn gat ég ekki annað en svarað honum játandi. Ég fermdist á síðustu öld og ekki við öðru að búast en að eitthvað hafi verið öðruvísi. Fermingardagurinn minn var 17. apríl árið 1977. Þegar ég fermdist var séra Björn Jónsson sóknarprestur. Séra Björn var fjórði sóknarprestur Skagamanna og er séra Eðvarð fimmti sóknarprestur Akurnesinga frá árinu 1886. Fermingarfræðslan fór fram í Brekkubæjarskóla sem þá var eini grunnskólinn á Akranesi og kom séra Björn einu sinni í viku í hvern bekk í árgangnum.
Þegar ég fermdist var ekki búið að byggja Safnaðarheimilið Vinaminni og þess vegna vorum við klædd í fermingarkirtlana af kirkjunefndarkonum heima hjá prestinum og gengum þaðan til kirkju með séra Birni. Eitt af því sem er nú öðruvísi er að altarisgangan var ekki hluti af fermingarathöfninni sjálfri, heldur önnur athöfn „eiginlega annar í fermingu“ sem var daginn eftir og þá þurftum við að fara aftur í sparifötin, í fermingarkirtlana og laga þurfti hárið á okkur stelpunum. Þá var í tísku að vera með eitt stór blóm í hárinu sem hárskraut, oft var notuð lifandi nellika og okkur stelpunum fannst við eiginlega vera með blómvönd í hárinu. Hárskrautið sem notað er í dag er mun fínlegra.

Við fórum líka í fermingarbarnaferðalag eins og þið fóruð í Skálholt. Þegar ég fermdist tíðkaðist það að séra Björn fór með tilvonandi fermingarbörn uppí Vatnaskóg og þar var gist eina nótt. Við fórum í leiki að deginum til og um kvöldið stjórnaði séra Björn mjög skemmtilegri kvöldvöku þar sem mikið var sungið og farið var í leiki. Þegar við jafnaldrarnir hittumst á reunion hitting sem er á 5 ára fresti þá höfum við rifjað upp þegar sér Björn var forsöngvari hjá okkur og söng „Það var einu sinni kerling og hún hét Pálína, Pálína na na na ……. Þarna lék séra Björn Pálínu af mikilli innlifun og var með slæðu á höfðinu, sjal um axlirnar og fínt veski. Ég get bara sagt ykkur að séra Björn sló í gegn þetta kvöld og Pálínu atriðið er ógleymanlegt okkur sem þarna voru.
Fyrir ferminguna tíðkaðist að það var gefið út myndarlegt fermingarbarnablað sem fermingarbörn seldu. Í þessu fermingarbarnablaði voru líka hópmyndir af fermingarbörnum sem fermst höfðu árið áður. Við skrifuðum greinar í blaðið og flestar greinarnar birtust í blaðinu. Ég man að okkur þótt upphefð í því að grein eftir okkur væri gefin út í blaði.

Þegar ég fermdist voru fermingarbörnin 104 og er það svipaður fjöldi og nú fermist frá Akraneskirkju 36 árum síðar. Við vorum fermd í sjö fermingarathöfnun og er það sama fyrirkomulag og nú er.

Það sem er nýtt og við gerðum ekki er fermingarbarnasöfnunin. Nú taka fermingarbörn þátt í fermingarsöfnun þar sem þau safna fé fyrir hjálparstarf kirkjunnar. Fermingarbörn á Akranesi tóku þátt í þessari árlegu fermingarbarnasöfnun með gleði og ánægju þó svo veðrið væri ekki gott . Þarna söfnuðu fermingarbörn á Akranesi á 4 hundrað þúsund krónur, sem rennur óskert til hjálparstarfs í Afríku. Með þessari söfnun ykkar hafið þið gert góðverk og sýnt kærleiksboðskapinn í verki. Launin sem fólk fær fyrir svona góðgerðarstörf eru þakklæti, lífsfylling / lífsánægja, og manni líður bara svo vel í hjartanu.

Þegar ég fermdist tíðkaðist ekki að leigja sali úti í bæ fyrir fermingarveislur. Þá voru veislurnar haldnar heima og borð og stólar oft fengnir að láni hjá vinum og vandamönnum. Þá voru veislurnar heldur ekki eins fjölmennar eins og gerist í dag. Þá voru heldur ekki send út boðskort heldur oftast hringt úr heimasímanum, sem var snúrusími með skífu, og þannig boðað til veislu.

Foreldrar mínir buðu uppá mat í fermingarveislunni minni og þá voru svokölluð köld borð í tísku síðan hafði mamma bakað dýrindis tertur og það var boðið uppá kaffi og kökur í eftirrétt. Varðandi gjafir þá man ég að ég fékk úr í fermingargjöf frá foreldrum mínum, skatthol frá móðurafa og passíusálma frá föðurömmu, hring frá systur minni, síðan fékk ég líka bækur, skartgripi , hárblásara ofl.

Í Davíðssálmi í 37 kafla versi 5 stendur:

„Fel drottni vegu þína
og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá“

Að lokum óska ég þess að þið eigið góðan fermingardag með ástvinum ykkar og Guð gefi ykkur bjarta framtíð.Föstudagur 22. júní 2012

Sveinn Arnar Sæmundsson er bæjarlistamaður Akraness árið 2012

Á hátíðarsamkomu í Garðalundi á þjóðhátíðardaginn þann 17. júní sl. var tilkynnt að Sveinn Arnar Sæmundsson, organisti Akraneskirkju yrði bæjarlistamaður Akraness árið 2012 en svo skemmtilega vildi til að Sveinn Arnar tók þátt í hátíðarhöldunum sem undirleikari Hönnu Þóru Guðbrandsdóttur, sópransöngkonu sem var bæjarlistamaður Akraness árið 2011.

Sveinn Arnar Sæmundsson
Sveinn Arnar Sæmundsson

Sveinn Arnar hefur verið áberandi í tónlistarlífinu á Akranesi á undanförnum árum en hann hefur m.a. stjórnað afar öflugu kórastarfi í Akraneskirkju auk þess sem hann hefur stjórnað fleiri kórum og komið fram í tengslum við hina ýmsu tónlistarviðburði. Sveinn Arnar er því vel að þessari tilnefningu kominn

Sveinn Arnar hóf nám í píanóleik ungur að árum í Tónlistarskóla Skagafjarðar hjá Stefáni R. Gíslasyni. Árið 1994 hóf hann nám í orgelleik við Tónlistarkóla Akureyrar hjá Birni Steinari Sólbergssyni og vorið 1999 lauk hann 8. stigi í orgelleik, þá undir handleiðslu Eyþórs Inga Jónssonar.

Sveinn Arnar stundaði kirkjutónlistarnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar þar sem orgelkennarar hans voru Hörður Áskelsson og Björn Steinar Sólbergsson. Hann útskrifaðist með kantorspróf þaðan haustið 2006 og einleiksáfanga frá sama skóla vorið 2010. Arnar hefur sótt námskeið í kórstjórn og orgelleik, bæði hér heima og erlendis m.a. annars hjá Mathias Wager, Lasse Ewerlöf, Dan-Olof Stenlund, Hákoni Leifssyni og Guðmundi Óla Gunnarssyni.

Frá árinu 2002 hefur hann verið organisti og kórsstjóri við Akraneskirkju. Einnig hefur hann stjórnað Kammerkór Akraness frá árinu 2004.

Starfsfólk Akraneskirkju óskar Sveini Arnari innilega til hamingju með þennan vegsauka.Fimmtudagur 12. október 2006

Fermingarundirbúningur hafinn

Fermingarundirbúningur er hafinn í Garðaprestakalli. Næsta vor verða um 100 ungmenni fermd í Akraneskirkju. Fermt verður dagana 22. mars, 29. mars, 12. apríl og 19. apríl. Aðeins ein athöfn verður 22. mars, kl. 14. en  tvær athafnir verða hina fermingardagana, kl. 10,30 og 14.

Fermingarundirbúningur hafinn

Fermingarbörnum er kennt í Grundaskóla á miðvikudögum og í Safnaðarheimilinu Vinaminni á fimmtudögum. Það er einnig liður í fermingarundirbúningi að þau kynnist helgihaldi og félagsstarfi kirkjunnar. Ætlast er til að þau sæki 6 guðsþjónustur yfir vetrartímann og taki þátt í Æskulýðsfélagi kirkjunnar sem starfar á mánudagskvöldum.

Fermingarbörnin sækja árlega námskeið á haustdögum í Skálholti. Um dagsferð er að ræða. Á hverju hausti ganga þau í hús og safna fjármunum handa fátækum í Afríku. Í fyrra söfnuðu Akranesbörn rúmlega 300 þús. kr. Það er stórfé á mælikvarða Afríkubúa!

Fermingarundirbúningi lýkur síðan með knattspyrnukappleik á milli starfsfólks kirkjunnar og fermingarbarna á Merkurtúninu.

Boðið er upp á kók og prins póló á eftir!Mánudagur 9. október 2006

Dagur hjónabandsins í Akraneskirkju

Dagur hjónabandsins

Dagur hjónabandsins verður haldinn hátíðlegur í Akraneskirkju nk. sunnudag, 15. október. Er þetta níunda árið í röð sem guðsþjónusta að hausti er tileinkuð hjónabandinu sérstaklega og hefst hún kl. 14.

Flutt verður stutt prédikun um ástina og kærleikann. Kammerkór Akraness syngur fallega brúðkaupssálma.

Að guðsþjónustu lokinni er öllum kirkjugestum boðið til kaffisamsætis í Safnaðarheimilinu Vinaminni. Þar mun kammerkórinn syngja nokkur ljúf lög til viðbótar.

Þetta er guðsþjónusta sem ástfangin hjón og pör á öllum aldri mega ekki missa af. Nú býður þú ástinni þinni til kirkju! Sýnum hjónabandinu og ástarsambandinu þá ræktarsemi sem það á skilið.

Allir velkomnir!Fimmtudagur 5. október 2006

Raggi Bjarna skemmtir í safnaðarheimilinu

Ragnar Bjarnason
Ragnar Bjarnason

 

Annan fimmtudag í hverjum mánuði yfir vetrartímann er opið hús fyrir eldri borgara í Safnaðarheimilinu Vinaminni – frá kl. 13.30 til 16. Þessar samkomur hafa verið afar vel sóttar fram að þessu, svo að ekki sé meira sagt! Í fyrravetur komu yfir 100 manns hverju sinni.

Fyrst er spiluð félagsvist eða bingó, síðan gert kaffihlé, þá flutt hugvekja og bæn, og eftir það er létt dagskrá í tali og tónum.

Næstkomandi fimmtudag, 12. október, verður fyrsta samvera vetrarins. Spilað verður bingó.

Gestur dagsins verður hinn landskunni dægurlagasöngvari og spaugari, Ragnar Bjarnason. Hann mun skemmta kl. 15.

Allir eru velkomnir!

Gestum er heimilt að koma og fara þegar þeim hentar!Sunnudagur 1. október 2006

Akraneskirkja opnar heimasíðu

Akraneskirkja
Akraneskirkja

Akraneskirkja hefur opnað heimasíðu. Það var gert með viðhöfn í Safnaðarheimilinu Vinaminni eftir guðsþjónustu 1. október sl.

Heiðurskonan, Ragnheiður Guðbjartsdóttir, fyrrum formaður sóknarnefndar og starfsmaður kirkjunnar um árabil, ýtti á hnapp til að varpa síðunni út á veraldarvefinn.

Táknrænt var að fá Ragnheiði til að gera þetta. Hún er komin hátt á níræðisaldur og er af kynslóð sem ekki ólst upp við tölvur. Hún afhenti síðan formanni sóknarnefndar, Þjóðbirni Hannessyni, vefsíðuna til notkunar. Þar mættust fulltrúar tveggja tíma, hins gamla og nýja.

Akurnesingurinn, Bjarni Þór Ólafsson, á heiðurinn að uppsetningu og umbroti þessarar heimasíðu. Hann lagði mikla vinnu og alúð í þetta verk.

Á heimasíðu Akraneskirkju kennir ýmissa grasa. Sjón er sögu ríkari! Gjörið svo vel að kynna ykkur hana!110 ára vígsluafmæli kirkjunnar

vigslubiskup

Þess var minnst í hátíðarguðsþjónustu 20. ágúst sl. að 110 ár eru liðin frá því að Akraneskirkja var vígð. Hún var vígð 23. ágúst 1896. Vígslubiskupinn í Skálholti, hr. Sigurður Sigurðarson, prédikaði.

Sóknarprestur og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur Borgfirðinga, þjónuðu fyrir altari. Sóknarnefndarfólk tók þátt í athöfninni og Kirkjukór Akraness söng.

Að guðsþjónustu lokinni var kirkjugestum boðið til kaffisamsætis í Safnaðarheimilinu Vinaminni. Þar voru kirkjunni afhentar veglegar gjafir frá Akraneskaupstað og Kirkjunefnd kvenna í tilefni tímamótanna. Fjölmenni var við þessa hátíðarguðsþjónustu og veður með allrabesta móti, einn af hlýjustu og sólríkustu dögum sumarsins!