Sunnudagur 1. október 2006

Akraneskirkja opnar heimasíðu

Akraneskirkja
Akraneskirkja

Akraneskirkja hefur opnað heimasíðu. Það var gert með viðhöfn í Safnaðarheimilinu Vinaminni eftir guðsþjónustu 1. október sl.

Heiðurskonan, Ragnheiður Guðbjartsdóttir, fyrrum formaður sóknarnefndar og starfsmaður kirkjunnar um árabil, ýtti á hnapp til að varpa síðunni út á veraldarvefinn.

Táknrænt var að fá Ragnheiði til að gera þetta. Hún er komin hátt á níræðisaldur og er af kynslóð sem ekki ólst upp við tölvur. Hún afhenti síðan formanni sóknarnefndar, Þjóðbirni Hannessyni, vefsíðuna til notkunar. Þar mættust fulltrúar tveggja tíma, hins gamla og nýja.

Akurnesingurinn, Bjarni Þór Ólafsson, á heiðurinn að uppsetningu og umbroti þessarar heimasíðu. Hann lagði mikla vinnu og alúð í þetta verk.

Á heimasíðu Akraneskirkju kennir ýmissa grasa. Sjón er sögu ríkari! Gjörið svo vel að kynna ykkur hana!110 ára vígsluafmæli kirkjunnar

vigslubiskup

Þess var minnst í hátíðarguðsþjónustu 20. ágúst sl. að 110 ár eru liðin frá því að Akraneskirkja var vígð. Hún var vígð 23. ágúst 1896. Vígslubiskupinn í Skálholti, hr. Sigurður Sigurðarson, prédikaði.

Sóknarprestur og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur Borgfirðinga, þjónuðu fyrir altari. Sóknarnefndarfólk tók þátt í athöfninni og Kirkjukór Akraness söng.

Að guðsþjónustu lokinni var kirkjugestum boðið til kaffisamsætis í Safnaðarheimilinu Vinaminni. Þar voru kirkjunni afhentar veglegar gjafir frá Akraneskaupstað og Kirkjunefnd kvenna í tilefni tímamótanna. Fjölmenni var við þessa hátíðarguðsþjónustu og veður með allrabesta móti, einn af hlýjustu og sólríkustu dögum sumarsins!