Hallgrímskirkja í Saurbæ er friðlýst steinsteypt kirkja sem byggð var á árunum 1954-1957. Höfundar hennar voru arkitektarnir Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson. Kirkjan er ein markverðasta kirkjubygging eftirstríðsáranna, vel varðveitt og heilsteypt verk í listrænu tilliti. Þá er byggingin mikilvægt dæmi um höfundarverk arkitektanna, þar sem þeir unnu með hefðbundið kirkjuform á nýstárlegan hátt með efnum og útfærsluatriðum samtíðar sinnar.

Kirkjan var reist sem minningarkirkja um sálmaskáldið séra Hallgrím Pétursson 1614-1674 sem var prestur í Saurbæ á árunum 1651-1669. Kirkjan er byggð úr steinsteypu en að innan eru veggir hlaðnir úr dönskum tígulsteini. Loft í kór er klætt með harðvið en þak að utan með eir. Orgel kirkjunnar er frá árinu 1968. Það er tólf radda pípuorgel og var smíðað í orgelverksmiðjunni Vestre á eyjunni Haramsöy í Noregi. Altaristafla kirkjunnar er kalkmálverk, freska, eftir finnska listamanninn Lennart Segerstråle.

Listaverkið kom í kirkjuna árið 1964. Í kirkjunni eru sjö steindir gluggar, gerðir af Gerði Helgadóttur. Inn í kór að norðan er tvískiptur gluggi, með tveimur glermálverkum. Efri mynd gluggans sýnir er Jesús sagði: „Kona, hví grætur þú?“, en sú neðri minnir á sálm sr. Hallgríms, „Allt eins og blómstrið eina“. Að sunnanverðu í kirkjunni eru fimm gluggar, allir jafn stórir og með einu glermálverki hver. Sá innri er byggður á síðasta versi Passíusálmanna, en hinn er tákn upprisunnar. Þriðji glugginn innan frá sýnir Maríu guðsmóður þar sem hún heldur á líkama Jesú. Fjórði glugginn sýnir krossfestingu Jesú. Fimmti glugginn er byggður á 32. Passíusálmi, „Greinir Jesús um græna tréð.“

Á stafni kirkjunnar er stór, þrískiptur gluggi, með þremur glermálverkum. Hið efsta táknar Jesú í Gestemane, fyrir miðju er Jesús frammi fyrir Pílatusi og hið neðsta, þegar Jesú sagði, „Ég er hann.“ Prédikunarstóllinn er frá árinu 1957 og er úr askviði, útskorinn með guðspjallamönnunum og táknum þeirra og gerði það myndskurðarmaðurinn Ágúst Sigurmundsson. Skírnarfonturinn var unninn af Ársæli Magnússyni steinsmið, en skírnarskálin var gerð af Leifi Kaldal. Kirkjan á silfurkaleik frá 19. öld og kaleik og patínu úr silfri þar sem greyptar eru hendingar úr Passíusálmunum. Tvær klukkur eru í kirkjunni. Þær eru norskar og eru rafknúnar.