Fermingarstarfið heitir öðru nafni skírnarfræðsla og hefur eftirfarandi meginmarkmið:

  • Að kenna grundvallaratriði kristinnar trúar.
  • Að vekja og efla trú á Jesú Krist, Drottin vorn og frelsara.
  • Að virkja fermingarbörnin í starfi safnaðarins, t.d. í helgihaldi.
    Fermingarundirbúningur hafinn

Fermingarstarf Akraneskirkju hefst á ný í lok ágúst. Það verður með öðru sniði en áður. Dagana 15.-18. ágúst (mánudag til fimmtudags) verður haldið sumarnámskeið fermingarfræðslunnar. Ungmenni úr Brekkubæjarskóla verða í fermingarstarfi kl. 9-12 en ungmenni úr Grundaskóla kl. 13-16. Kennt verður í Safnaðarheimilinu Vinaminni.

Hvað um þá sem ekki komast á sumarnámskeiðið?

Þau ungmenni, sem ekki komast á sumarnámskeiðið í ágúst, mæta í staðinn í fermingarfræðslu þrjá föstudaga í september. Tímasetningar kynntar síðar.

 

Öll fermingarbörnin koma svo til fræðslu í Safnaðarheimilinu Vinaminni einu sinni í mánuði frá síðustu viku í september – fram að fermingu. Ungmennin mæta með sínum skóla, sinnhvorn daginn. Hver samvera er tvær klst. að lengd. Kennsludagar verða kynntir í haust þegar stundatafla skólanna liggur fyrir.


Guðsþjónustur og æskulýðsfélag

Fermingarbörnin eru skyldug að sækja 6 guðsþjónustur (fjölskylduguðsþjónustur) yfir vetrartímann.

Sömuleiðis er ætlast til að ungmennin taki þátt í Æskulýðsfélagi kirkjunnar og sæki þar fundi einu sinni fyrir jól og einu sinni eftir áramót. Fundirnir eru á mánudagskvöldum kl. 20-21:30 (húsið opnað kl. 19,30) í Iðsnkólahúsinu. Þar er ýmislegt gert til fróðleiks, uppbyggingar og afþreyingar! Æskulýðsfélagið er líka á facebook.


Vatnaskógarferð

Fermingarbörnin munu sækja fermingarnámskeið í Vatnaskógi, dagana 1. – 2. september 2016. Gist er eina nótt og fara báðir skólarnir saman í ferðalagið. Vatnaskógur er skemmtilegur staður í Svínadal í Hvalfirði, þar reka Skógarmenn KFUM sumarbúðir og taka á móti fermingarbörnum á haustin. Námskeiðið er blanda fræðslu, leikja og skemmtunar. Fermingarbörn Akraneskirkju hafa ekki sótt námskeið í Vatnaskóg áður en þau hafa verið vinsæl hjá þeim hópum sem þangað hafa farið.


 

Söfnun fermingarbarna

Á hverju hausti ganga fermingarbörn í hús og safna fjármunum handa fátækum í Afríku. Þau fá leiðbeiningar áður en þau leggja af stað, tvö og tvö saman. Með þessu skapast kjörið tækifæri fyrir þau til að meðtaka boðskap Krists um náungakærleika á áþreifanlegan hátt. Á unglingsárum, þegar skilningur vex og ungt fólk er að móta sér lífsstíl, er mikilvægt að fá að setja sig í samhengi við aðra í heiminum og skynja kraft sinn til þess að breyta rétt og hafa áhrif. Haustið 2014 söfnuðu fermingarbörn á Akranesi 375 þús. kr. til hjálpar bágstöddum í Afríku. Þeir fjármunir komu sér mjög vel fyrir marga, eins og nærri má geta! Þetta er stórfé á mælikvarða Afríkubúa!