Innri-Hólmskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1891–1892. Hönnuður hennar var Jón Jónsson Mýrdal forsmiður og rithöfundur. Í upphafi var kirkjan timburklædd á veggjum en bárujárnsklædd á þökum. Á kirkjunni voru sexrúðu póstagluggar og yfir þeim bjór. Árið 1896 var turn klæddur sléttu járni en kórgafl og suðurhlið klædd bárujárni en vesturstafn og norðurhlið árið 1906. Árið 1952 var steypt utan á veggi kirkjunnar, bogadregnir gluggar smíðaðir í hana og steinsteypt forkirkja byggð.

Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki og stallur undir honum. Á framhlið turns er sveigður gluggi og hringgluggi efst. Veggir eru sléttaðir, þök og turn klædd bárujárni en turnstallur sléttu járni. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar með 12 rúðum og minni níurúðu gluggi ofarlega á framstafni. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bogadreginn gluggi yfir. Altaristaflan er olíumálverk eftir Jóhannes Kjarval listmálara frá árinu 1931 og sýnir kross á Golgatahæð. Kirkjan á silfurkaleik og patínu sem smíðuð voru í Danmörku árið 1741. Skírnarfonturinn var smíðaður árið 1976 af Þórði Vilmundarsyni hagleiksmanni á Mófellsstöðum í Skorradal. Klukkur Innri-Hólmskirkju eru tvær. Önnur er frá árinu 1764, hin er án áletrunar.