Fermingarundirbúningur er hafinn í Garðaprestakalli. Næsta vor verða um 100 ungmenni fermd í Akraneskirkju. Fermt verður dagana 22. mars, 29. mars, 12. apríl og 19. apríl. Aðeins ein athöfn verður 22. mars, kl. 14. en  tvær athafnir verða hina fermingardagana, kl. 10,30 og 14.

Fermingarundirbúningur hafinn

Fermingarbörnum er kennt í Grundaskóla á miðvikudögum og í Safnaðarheimilinu Vinaminni á fimmtudögum. Það er einnig liður í fermingarundirbúningi að þau kynnist helgihaldi og félagsstarfi kirkjunnar. Ætlast er til að þau sæki 6 guðsþjónustur yfir vetrartímann og taki þátt í Æskulýðsfélagi kirkjunnar sem starfar á mánudagskvöldum.

Fermingarbörnin sækja árlega námskeið á haustdögum í Skálholti. Um dagsferð er að ræða. Á hverju hausti ganga þau í hús og safna fjármunum handa fátækum í Afríku. Í fyrra söfnuðu Akranesbörn rúmlega 300 þús. kr. Það er stórfé á mælikvarða Afríkubúa!

Fermingarundirbúningi lýkur síðan með knattspyrnukappleik á milli starfsfólks kirkjunnar og fermingarbarna á Merkurtúninu.

Boðið er upp á kók og prins póló á eftir!