Ávarp sóknarprests, sr. Eðvarðs Ingólfssonar,
í  kaffisamsæti eftir messu, 21. ágúst 2016

Kæru gestir! Ég vil byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með 120 ára vígsluafmæli Akraneskirkju og 30 ára vígsluafmæli safnaðarheimilisins!

Í Akraneskirkju hafa margir lifað sínar dýpstu og helgustu stundir í gleði og sorg, stundir sem marka þáttaskil á ævileið.

   Á tímamótum er gott að staldra við og minnast þess sem að baki er, líkt og við gerum hér í dag. Okkur gefst sérstakt tækifæri til að þakka, – þakka góðum Guði fyrir gengin spor – og samfylgd hans á ævivegi.

   Það hefur aldrei verið brýnna en nú á dögum, – á tímum mikillar fjölhyggju, að kristnir menn standi saman. Við lifum á viðsjálverðum tímum. Okkur ætti að vera mikið áhyggjuefni hve afhelgun á mörgum sviðum mannlífsins færist í aukana – hér á landi sem annars staðar. Dópneysla og glæpir ýmiskonar eru skýrasta dæmið um það. Margt sem áður var heilagt fyrir þjóð er það ekki lengur. Og þegar lífsgildi og markmið þjóðar eru ekki lengur á hreinu, þá er komið í óefni. Uppvaxandi kynslóðir vita þá ekki lengur hvert stefnt er með lífinu, – hver sé tilgangur þess. Það er miður – og það er hættulegt – og kallar á tóm og tilgangsleysi. Kirkjan er kölluð til að standa vörð um þau lífsgildi sem tengja saman fortíð, nútíð og framtíð. Þjóð án markmiðs sundrast! Þjóð sem ekki hlúir að trúararfi sínum, rifnar upp með rótum – og það getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir hana.

   Kirkjan okkar, Akraneskirkja, geymir mikla sögu! En hún geymir ekki bara hina ytri sögu, svo sem byggingasögu, ártöl, nöfn presta, organista og annars fólks sem lagt hefur kirkjulegu starfi lið í aldanna rás, heldur einnig hina innri sögu – sem erfiðara er að henda reiður á – og er í sjálfu sér mikilvægari. Það er saga þín og mín, – minningar frá stórum stundum helgidóminum, saga af tárum og brosum, vonum og vonbrigðum, sorg og gleði. Þar hefur sál okkar átt samtal við Guð, – þar hafa dýpstu og einlægustu spurningar leitað á huga og hjarta – í von um svör og handleiðslu. Það er þessi saga sem er í raun þýðingarmest; sagan af samskiptum manns og Guðs, hvað svo sem öllum afmælum líður.   

   Að síðustu þetta, kæru vinir:   Við minnumst – með miklu þakklæti – allra þeirra, lífs og liðinna, sem hafa hlúð að Akraneskirkju og vakað yfir safnaðarstarfi. Við eigum gengnum kynslóðum mikið að þakka. Við þökkum þann dýrmæta trúararf sem við höfum fengið til varðveislu og ávöxtunar. Án hans værum við ekki hér.

   Guð blessi helgidóminn okkar og söfnuðinn – og alla þá sem hér inna dýrmætt starf og þjónustu af hendi í þágu kirkju og kristni. Guð vaki – áfram sem hingað til – yfir okkur öllum í lífi og starfi. 

   Hafið þökk fyrir að vitja kirkju ykkar á merkum tímamótum! Guð blessi ykkur!