Stóð við krossinn mærin mæra
Á föstudaginn langa verður flutt hið forna helgikvæði Stabat Mater, eftir Giovanni Battista Pergolesi í Akraneskirkju við helgistund kl. 20.
Píslarsaga Krists hefur verið mörgum uppspretta að yrkisefni, líkt og aldagamlir sálmar og nýrri bera vitni um. Helgikvæðið Stabat Mater, er kristinn sálmur frá 13. öld, saminn til dýrðar Maríu mey þar sem horft er á krossfestingu Krists með augum Maríu guðsmóður, hinnar sorgmæddu móður sem stóð við krossinn, í kvæðinu endurspeglast sorg hennar og þjáning en er líður á sálminn skynjar áheyrandinn merkingu krossdauða Krists okkur öll. Ýmsir hafa samið fallega tónlist við sálminn en tónverk Pergolesi hefur notið mikilla vinsælda. Verkið er í tíu þáttum og verður þýðing Matthíasar Jochumssons lesin fyrir hvern þátt.
Líkt er með ævi meistaranna Mozart og Pergolesi að báðir voru þeir undrabörn í tónlist, dóu ungir og unnu báðir að sínu lokaverki á dánarbeðinu, Pergolesi að Stabat Mater 26 ára og Mozart 36 ára að Sálumessu sinni. Verkin hafa bæði hlotið heimsfrægð fyrir fegurð sína og tjáningu og eru bæði talin til bestu verka tónbókmenntanna á sínu sviði.
Stabat Mater er samið fyrir tvo einsöngvara, sópran og alt, strengjasveit, kvennakór og orgel.
Flytjendur eru Bernadett Hegyi sópran, Hildigunnur Einarsdóttir alt, strengjasveit undir stjórn Matthíasar Stefánssonar ásamt kvenröddum úr Kammerkór Akraness. Stjórnandi og organisti er Hilmar Örn Agnarsson. Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir leiðir helgistundina.
Tónlistarflutningurinn er samstarfsverkefni Kalman listafélags og Akraneskirkju.
Verið velkomin!