- Akraneskirkja er 115 ára. Þetta er fyrsta og eina kirkjan á „Skaganum“ en áður hafði kirkja verið í Görðum.
- Yfirsmiður og hönnuður Akraneskirkju var Guðmundur Jakobsson frá Sauðafelli í Dölum. Hann kom á sinni tíð að mörgum kirkjubyggingum hér á landi og var brautryðjandi í þróun nýs byggingarforms íslenskra kirkna.
- Akraneskirkja kostaði fullsmíðuð 9.942 kr. og 92 aura. Garðakirkja lagði til 4.600 kr. en tekin voru lán fyrir mismuninum. Fjórum árum síðar, á aldamótaári 1900, voru þau að fullu greidd.
- Akraneskirkja var vígð við hátíðlega athöfn, 23. ágúst 1896. Alls voru 450 viðstaddir. Sr. Jón A. Sveinsson, sóknarprestur Akurnesinga og nýskipaður prófastur Borgfirðinga, vígði kirkjuna sjálfur í fjarveru biskups Íslands, hr. Hallgríms Sveinssonar, sem komst ekki til athafnarinnar, eins og fyrirhugað hafði verið, sökum óveðurs. Í þá daga voru seglbúin áraskip einu samgöngutækin á milli Reykjavíkur og Akraness.
- Tvö pípuorgel hafa verið í Akraneskirkju. Hið fyrra, sem var þýskt og 13 radda, var tekið í notkun 1960. Núverandi orgel kom í kirkjuna 1988. Það er 32 radda og smíðað í Danmörku. Fyrir 1960 var notast við fótstigið harmoníum sem nú er varðveitt á Byggðasafninu að Görðum.
- Skrúðhús var byggt við Akraneskirkju 1965-1966 og kirkjan þannig lengd um 2,7 metra. Skipt var um kirkjuturn á vordögum 2002. Gamli turninn var kominn til ára sinna og því nýr smíðaður.
-
Einungis fimm sóknarprestar hafa þjónað Akurnesingum frá 1886. Þeir eru:
Sr. Jón A. Sveinsson, 1886 til 1921.
Þorsteinn Briem, 1921 til 1946.
Jón M. Guðjónsson, 1946 til 1975.
Björn Jónsson, 1975 til 1997.
Eðvarð Ingólfsson, frá 1997.Til fróðleiks má geta þess að þeir tengdafeðgar, sr. Jón M. Guðjónsson og sr. Björn Jónsson, þjónuðu Akurnesingum í meira en hálfa öld samanlagt – eða 51 ár.
Nokkrir prestar hafa þjónað á Akranesi í afleysingum. Þar má nefna sr. Friðrik Friðriksson, sr. Magnús Runólfsson og dr. Sigurbjörn Einarsson, prófessor, síðar biskup Íslands.
- Þórarinn Guðmundsson, hinn landskunni fiðluleikari og tónskáld, var sonur Guðmundar Jakobssonar, yfirsmiðs Akraneskirkju, og konu hans, Þuríðar Þórarinsdóttur. Hann fæddist á Akranesi 1896 á meðan faðir hans vann að smíði kirkjunnar. Árið 1960 tileinkaði Þórarinn Akraneskirkju lag við sálminn: Ó, Guð, þú ert vor skjöldur skjól. Hann hafði svo miklar taugar til kirkjunnar að hann talaði alltaf um hana sem „systur“ sína. Til gamans má geta þess að Þórarinn trúlofaðist konu sinni uppi í kirkjuturninum um 1915.
- Í Kirkjugarði Akraness stendur klukkuturn til minningar um kirkjuhald í Görðum frá upphafi kristni hér á landi. Biskup Íslands, hr. Ásmundur Guðmundsson, vígði turninn sumarið 1958.
- Útfararþjónusta Akraneskirkju tók formlega til starfa 1974.
- Safnaðarheimilið Vinaminni var vígt sunnudaginn 24. ágúst 1986. Þann sama dag var þess minnst í hátíðarguðsþjónustu að 90 ár voru liðin frá vígslu Akraneskirkju. Hr. Pétur Sigurgeirsson, biskup Íslands, prédikaði í guðsþjónustunni og vígði síðan safnaðarheimilið á eftir.
- Yfir 20 þúsund manns sækja árlega athafnir í Akraneskirkju. Flestir sækja útfarir og guðsþjónustur. Álíka margir sækja samkomur í safnaðarheimilinu Vinaminni. Erfidrykkjur eru þar meðtaldar.
Gunnlaugur Haraldsson skráði.