Á Æskulýðsdegi Akraneskirkju 3. mars sl. flutti Sigríður Kr. Valdimarsdóttir stutta hugvekju, þar sem hún rifjaði upp fermingu sína og fermingarundirbúninginn.
Sigríður hefur starfað í sóknarnefnd Akraneskirkju um nokkurra ára skeið.

Þegar séra Eðvarð sendi mér tölvupóst í vikunni og bað mig að rifja upp fermingardaginn og fermingarundirbúninginn gat ég ekki annað en svarað honum játandi. Ég fermdist á síðustu öld og ekki við öðru að búast en að eitthvað hafi verið öðruvísi. Fermingardagurinn minn var 17. apríl árið 1977. Þegar ég fermdist var séra Björn Jónsson sóknarprestur. Séra Björn var fjórði sóknarprestur Skagamanna og er séra Eðvarð fimmti sóknarprestur Akurnesinga frá árinu 1886. Fermingarfræðslan fór fram í Brekkubæjarskóla sem þá var eini grunnskólinn á Akranesi og kom séra Björn einu sinni í viku í hvern bekk í árgangnum.
Þegar ég fermdist var ekki búið að byggja Safnaðarheimilið Vinaminni og þess vegna vorum við klædd í fermingarkirtlana af kirkjunefndarkonum heima hjá prestinum og gengum þaðan til kirkju með séra Birni. Eitt af því sem er nú öðruvísi er að altarisgangan var ekki hluti af fermingarathöfninni sjálfri, heldur önnur athöfn „eiginlega annar í fermingu“ sem var daginn eftir og þá þurftum við að fara aftur í sparifötin, í fermingarkirtlana og laga þurfti hárið á okkur stelpunum. Þá var í tísku að vera með eitt stór blóm í hárinu sem hárskraut, oft var notuð lifandi nellika og okkur stelpunum fannst við eiginlega vera með blómvönd í hárinu. Hárskrautið sem notað er í dag er mun fínlegra.

Við fórum líka í fermingarbarnaferðalag eins og þið fóruð í Skálholt. Þegar ég fermdist tíðkaðist það að séra Björn fór með tilvonandi fermingarbörn uppí Vatnaskóg og þar var gist eina nótt. Við fórum í leiki að deginum til og um kvöldið stjórnaði séra Björn mjög skemmtilegri kvöldvöku þar sem mikið var sungið og farið var í leiki. Þegar við jafnaldrarnir hittumst á reunion hitting sem er á 5 ára fresti þá höfum við rifjað upp þegar sér Björn var forsöngvari hjá okkur og söng „Það var einu sinni kerling og hún hét Pálína, Pálína na na na ……. Þarna lék séra Björn Pálínu af mikilli innlifun og var með slæðu á höfðinu, sjal um axlirnar og fínt veski. Ég get bara sagt ykkur að séra Björn sló í gegn þetta kvöld og Pálínu atriðið er ógleymanlegt okkur sem þarna voru.
Fyrir ferminguna tíðkaðist að það var gefið út myndarlegt fermingarbarnablað sem fermingarbörn seldu. Í þessu fermingarbarnablaði voru líka hópmyndir af fermingarbörnum sem fermst höfðu árið áður. Við skrifuðum greinar í blaðið og flestar greinarnar birtust í blaðinu. Ég man að okkur þótt upphefð í því að grein eftir okkur væri gefin út í blaði.

Þegar ég fermdist voru fermingarbörnin 104 og er það svipaður fjöldi og nú fermist frá Akraneskirkju 36 árum síðar. Við vorum fermd í sjö fermingarathöfnun og er það sama fyrirkomulag og nú er.

Það sem er nýtt og við gerðum ekki er fermingarbarnasöfnunin. Nú taka fermingarbörn þátt í fermingarsöfnun þar sem þau safna fé fyrir hjálparstarf kirkjunnar. Fermingarbörn á Akranesi tóku þátt í þessari árlegu fermingarbarnasöfnun með gleði og ánægju þó svo veðrið væri ekki gott . Þarna söfnuðu fermingarbörn á Akranesi á 4 hundrað þúsund krónur, sem rennur óskert til hjálparstarfs í Afríku. Með þessari söfnun ykkar hafið þið gert góðverk og sýnt kærleiksboðskapinn í verki. Launin sem fólk fær fyrir svona góðgerðarstörf eru þakklæti, lífsfylling / lífsánægja, og manni líður bara svo vel í hjartanu.

Þegar ég fermdist tíðkaðist ekki að leigja sali úti í bæ fyrir fermingarveislur. Þá voru veislurnar haldnar heima og borð og stólar oft fengnir að láni hjá vinum og vandamönnum. Þá voru veislurnar heldur ekki eins fjölmennar eins og gerist í dag. Þá voru heldur ekki send út boðskort heldur oftast hringt úr heimasímanum, sem var snúrusími með skífu, og þannig boðað til veislu.

Foreldrar mínir buðu uppá mat í fermingarveislunni minni og þá voru svokölluð köld borð í tísku síðan hafði mamma bakað dýrindis tertur og það var boðið uppá kaffi og kökur í eftirrétt. Varðandi gjafir þá man ég að ég fékk úr í fermingargjöf frá foreldrum mínum, skatthol frá móðurafa og passíusálma frá föðurömmu, hring frá systur minni, síðan fékk ég líka bækur, skartgripi , hárblásara ofl.

Í Davíðssálmi í 37 kafla versi 5 stendur:

„Fel drottni vegu þína
og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá“

Að lokum óska ég þess að þið eigið góðan fermingardag með ástvinum ykkar og Guð gefi ykkur bjarta framtíð.