Sólveig Rún Samúelsdóttir

Sólveig Rún Samúelsdóttir

Sólveig Rún Samúelsdóttir

Góðan dag kæru kirkjugestir og gleðilega þjóðhátíð.

Í dag eru nákvæmlega 70 ár liðin frá því að lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum 1944. Það var engin tilviljun að þessi dagur varð fyrir valinu því aðal baráttumaður sjálfstæðisins, Jón Sigurðsson var fæddur þennan dag árið 1811. Jón var afar snjall og útsjónarsamur maður, hann sá tækifæri til baráttu þegar enginn annar sá það. Hann fór ótroðnar slóðir og var afar vinsæll meðal Íslendinga. Það sést best á því að hann sat sem alþingis maður Ísafjarðarsýslu til dauðadags og var oftast kjörinn forseti alþingis. Jón hefur svo sannarlega verið karl í krapinu og við, sem nú byggjum landið, eigum honum og öðrum forfeðrum okkar margt að þakka.

Þegar ég var lítil snérist þessi dagur um að syngja hástöfum hæ hó jibbý jei, fá sleikjó í fánalitunum og fara í hoppukastala. Jú vissulega vissi ég að Ísland ætti afmæli og karlinn á fimmhundraðkallinum ætti líka afmæli en söguna í kringum daginn þekkti ég ekki þá. Í dag er ég hinsvegar um margt fróðari. Eftir að hafa lært sitthvað um sjálfstæðisbaráttuna í sögutímum á skólagöngu minni get ég ekki annað en verið stolt af því sem samlandar mínir, með Jón Sigurðsson í broddi fylkingar, afrekuðu. Það að standa upp í hárinu á Danaveldi og gefast ekki upp, þrátt fyrir margar hindranir, er aðdáunarvert.

Stöndum vörð um sjálfstæðið
Baráttunni um sjálfstæði Íslands er þó ekki lokið og henni lýkur sennilega aldrei. Það er hlutverk okkar allra að varðveita menningararf okkar Íslendinga sem og íslensku tunguna, því ef þetta tvennt glatast er stór hluti af sjálfstæði okkar fyrir bý. Íslenskan hefur varðveist vel í gegnum aldirnar og við þurfum að viðhalda því. Við Íslendingar höfum það fram yfir margar aðrar þjóðir að þekkja sögu okkar frá upphafi landnáms. Það að geta lesið um kappa á borð við Kjartan Ólafson, Gunnar á Hlíðarenda og Egil Skallagrímsson eða kvenskörungana Auði Djúpúðgu og Bergþóru á Bergþórshvoli er nokkuð sem skapar okkur Íslendingum sérstöðu. Það ber þess merki hve íslenskan hefur orðið fyrir litlum áhrifum frá öðrum tungumálum. Nú á dögum tæknivæðingar er íslenskunni hins vegar ógnað, þar sem samfélagsmiðlar á netinu og sjónvarpið spila stórt hlutverk. Krakkar nú til dags fá enskuna beint í æð gegnum allskyns sjónvarpsefni og tónlist. Á samfélagsmiðlum þar sem lítið aðhald er að íslenskri málnotkun skrifa margir hverjir texta morandi í stafsetningar- og málvillum. Því held ég að sé afar mikilvægt að samfélagið stuðli að því að við, unga kynslóðin, ræktum íslenskuna því tungumálið er ef til vill sterkasta sameiningarafl þjóðarinnar.

Framtíðin er björt!
Eins mikilvægt og það er að varðveita sjálfstæðið, er líka mikilvægt að horfa til framtíðar. Nú stend ég ásamt öðrum nýstúdentum á merkum tímamótum. Eftir frábær skólaár er allt lífið framundan og stóra spurningin er hvað ætlum við okkur að verða? Tíminn hefur liðið alltof hratt síðustu ár og mér finnst svo stutt síðan ég fékk afnot af nokia 5110 símanum hans pabba sem var með loftneti, því ég átti það stundum til að gleyma mér útá leikvelli. Ef ég fengi einhverju um það ráðið myndi ég vilja verða 8 ára aftur með Barbie í hægri og Ken í vinstri, áhyggjulaus og sæl með drauma um að verða löggukona. En þess er víst enginn kostur og ég verð að horfast í augu við lífið heldur áfram.
Þegar stúdents prófið var í órafjarlægð og ég að stíga mín fyrstu skref í fjölbraut ætlaði ég að verða læknir. Allt framhaldsskólanámið mitt miðaði ég út frá því að ég myndi þreyta inntökupróf í læknisfræði. Þegar nokkrar vikur voru í útskrift var ég hinsvegar ekki viss. Það að þurfa að velja sér hvað maður ætlar að gera það sem eftir er, er ekki eins auðvelt og ég hélt. Ég hef líklega aldrei snúist í jafn marga hringi á minni stuttu ævi því hér á landi eru frábærar aðstæður til náms og fjölbreytnin gríðarleg. Öflugt menntakerfi er nefnilega stór hluti af sjálfstæði hverrar þjóðar.

Margir jafnaldrar mínir hafa hleypt heimdraganum, eru á leið í háskóla, hafa keypt sér bíl og jafnvel farið að búa. En ég? Ja, ég hef slegið háskólanum á frest í bili, fæ vonandi áfram afnot af hvíta vinnubílnum hans pabba sem flestir kalla limmuna og ætla að búa í foreldrahúsum fram á fertugsaldurinn.

Með jákvæðni og gleði að vopni eru okkur allir vegir færir og horfi ég bjartsýn til framtíðar. Njótum þess að vera til því lífið brosir svo sannarlega á móti okkur. Mér finnst við hæfi að ljúka máli mínu á ljóði skáldkonunnar Huldu. Það var verðlaunað í samkeppni um hátíðarljóð vegna stofnunar lýðveldisins 1944. Þetta ljóð er í raun tímalaust og á ekki síður við í dag en daginn sem það var ort.

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð,
með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð?
Geym, drottinn, okkar dýra land,
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð,
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ
hún unir grandavör, farsæl, fróð
og frjáls – við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur líti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í,
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð.
Svo aldrei framar Íslands byggð
öðrum þjóðum háð.