Kalman – listafélag heldur fjölskyldutónleika í Vinaminni á fyrsta sunnudegi í aðventu, 27. nóvember nk. sem hefjast kl. 14.

 

Tvíeykið og gleðipinnarnir í Dúó Stemmu, þau Herdís Anna og Steef, bregða á leik og flytja vetrarskemmdegisdagskrá með jólalegu ívafi fyrir alla fjölskylduna. Þau munu leika sér með íslensk þjóðlög, fara með þulur og sögð verður hljóðsaga um vináttuna með hjálp allskyns hljóðfæra og hljóðgjafa m.a. víólu, tromma, sandpappírs og hrossakjálka. Steinaspil Páls á Húsafelli verður líka með í för. Hljóðsagan fjallar um Fíu frænku sem er á ferðalagi með besta vini sínum Dúdda, en hann týnist. Fia leitar og leitar EN finnur hún Dúdda eða kannski bara eitthvað annað? Spennandi og skemmtileg saga sem lætur engan ósnortinn.

 

 

Dúó Stemma samanstendur af hljóðfæraleikurunum Herdísi Önnu Jónsdóttur víóluleikara og Steef van Oosterhout slagverksleikara, en þau eru bæði hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þau hafa leikið saman sem Dúó Stemma í mörg ár og búið til fræðandi og skemmtileg prógrömm fyrir börn á öllum aldri.

 

Dúó Stemma hefur leikið barna og fjölskyldutónleika sína í fjölmörgum skólum á Höfuðborgarsvæðinu og líka víðsvegar um allt Ísland. Einnig hafa þau komið fram í stærri tónlistarhúsum s..s Hörpu og Hofi á Akureyri. Dúó Stemma hefur lagt land undir fót og spilað fyrir börn í Færeyjum, Grænlandi og Hollandi. Árið 2019 spiluðu þau fjölskyldutónleika fyrir fullum sal í Konzerthaus Berlín. Sl. vor fengu þau svo styrk frá Barnamenningarsjóði og spiluðu í fimm stórborgum í Evrópu fyrir íslensk börn sem búa á erlendri grundu.

Árið 2008 fékk Dúó Stemma viðurkenningu frá IBBY samtökunum fyrir framlag þeirra til barnamenningar á Íslandi.

 

 

Aðganseyrir er kr. 2.500 fyrir fullorðna en frítt fyrir Kalmansvini og börn og unglinga yngri en 16 ára.

 

Kalman – listafélag er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands