Kór Akraneskirkju - Bíóhöllin 2018

Kór Akraneskirkju bauð upp á  nýárstónleika sem fram fóru fyrir fullu húsi í Bíóhöllinni 6. janúar síðastliðinn.

Efnisskráin á tónleikunum var fjölbreytt þar sem þekkt dægurlög voru flutt ásamt nýju efni þar sem hinn kunni lagahöfundur hljómsveitarinnar ABBA, Benny Anderson, kom m.a. við sögu. Íslensku dægurlögin voru í útsetningum eftir Ríkarð Örn Pálsson, Magnús Ingimarsson og Jón Sigurðsson. Kórinn söng lög á borð við Söknuð, Ágústnótt, Bláu augun þín og fleiri þekkt alþekkt lög.

Eftir hlé var fluttur lagaflokkurinn Feel the spirit sem inniheldur sjö afrísk-ameríska söngva í útsetningu enska tónskáldsins John Rutter.  Var gerður góður rómur að flutningnum enda lögin nokkuð þekkt og útsetningar glæsilegar.

Kammersveit sem skipuð var einvalaliði hljóðfæraleikara studdi vel við kórinn og um tónsprotann hélt Guðmundur Óli Gunnarsson.

Auður Guðjohnsen mezzosópran var einsöngvari  og kynnir kvöldsins var fjölmiðlakonan Margrét Blöndal.

 Með því að smella á myndina má sjá umfjöllun Skagafrétta frá tónleikunum og einnig myndir.