Með hækkandi sól byrjar gróðurinn að lifna við og Jón Guðmundsson mætir með unga fólkið sitt til að slá og hreinsa í kirkjugarðinum. Í vor keypti kirkjugarðurinn rafmagnsorf en þau eru hljóðlát og þægileg í notkun. Auk þess ganga þau fyrir hleðslurafhlöðum og eru því mun umhverfisvænni en bensínorfin sem hafa verið notuð um árabil. Þá er búið að hleypa vatni á vatnshanana og garðkönnurnar eru komnar á sinn stað. Kirkjugarðurinn verður því fagur sem endranær og friðsæll staður til að heimsækja.