Hinir söngelsku vinir, Kristjana Stefáns og Svavar Knútur, munu fagna vetri með virktum á Akranesi 16. nóvember næstkomandi á Kalmantónleikum í Vinaminni kl. 20.

Það er búið að vera mikið um að vera hjá þeim sitt í hvoru lagi og hafa þau ekki getað haldið tónleika saman í tvö ár, fyrir utan tvenna tónleika í sumar. En nú mega velunnarar þessa músíkalska pars á Akranesi kætast, því Kalman Listafélagi hefur tekist að lokka þau út úr vetrarhýðinu. Hér er því um að ræða kjörið tækifæri fyrir þá sem hafa sakna þess að mæta á þessa rómuðu dúettatónleika eða jafnvel misst af þeim hingað til.

 

Kristjana og Svavar Knútur hafa undanfarinn áratug vakið verðskuldaða athygli fyrir stórskemmtileg dúettakvöld. Þar ríkir jafnt gleði sem angurværð ásamt dassi af glensi og bera þau vinirnir á borð fjölbreytta dagskrá dúetta, sem rúmar allt frá Abba til Dolly Parton, með viðkomu á grænum grundum sígildra íslenskra söngperla og neonlitaðra 80’s slagara, auk frumsaminna laga og hinna ýmsu gleði- og tregabomba, ljóðalestri og gamansagna.

 

Árið 2020 fylgdu þau plötunni Glæðum eftir með nýrri plötu, sem bar nafnið Faðmlög. Platan, sem var tekin upp á tónleikum, hefur hlotið gríðargóðar viðtökur áheyrenda þeirra Kristjönu og Svavars og inniheldur mörg af þeirra eftirlætis lögum, bæði íslenskum og erlendum.

 

Miðaverð er kr. 3.500 og kr. 3.000 fyrir Kalmansvini.
Miðasala er við innganginn sem fyrr.
Boðið er upp á kaffi og konfekt í hléi.