Sagan á bak við altaristöfluna

Sagan segir að um árið 1930 þá hafi maður er bjó í Hvalfirði fengið mikla magakveisu. Hann þurfti að leggjast inn og gangast undir aðgerð og var ástandið á honum tvísýnt um tíma. Við hlið hans á spítalanum lá listamaðurinn Kjarval. Þegar þeir lágu þarna saman sömdu þeir um það að ef maðurinn lifði af þessa raun þá myndi Kjarval gera altaristöflu og gefa í Innra-Hólmskirkju. Hann lifði þetta af og Kjarval stóð við heitið og málaði altaristöfluna, þá er Kjarval rétt um fertugt.

Viðgerðin í október 2020

Bjarni Skúli Ketilsson (Baski) tók að sér það verkefni að laga og þrífa altaristöfluna nú í október 2020.

Hún var orðin óhrein og maðkétin. Hún var krumpuð og það þurfti að endurnýja fleygana í henni. Hún var því þrifin vel, strekkt og fékk nýja fleyga. Að lokum setti hann fernis yfir til að verja listaverkið.

Hér að neðan má sjá myndir af Baska lagfæra altaristöfluna og einnig má sjá myndir af ferlinu við flutning á altaristöflunni.