Akraneskirkja var þéttsetin sunnudaginn 21. ágúst þegar þess var minnst að 120 ár voru liðin frá vígslu hennar (23. ágúst 1896) og 30 ár frá vígslu  safnaðarheimilisins Vinaminnis.

Séra Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, prédikaði en auk hennar þjónuðu við athöfnina prestar safnaðarins, þeir sr. Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur og sr. Þráinn Haraldsson sem kom til starfa í fyrra þegar nýtt stöðugildi prests var stofnað. Prófastur Vestlendinga, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, las guðspjall dagsins. Tveir úr sóknarnefnd, þau Kristján Sveinsson og Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir, lásu ritningarorð. Kór Akraneskirkju söng undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar organista. Allir sálmarnir tengdust kirkjunni og prestakallinu á einhvern hátt.

Eftir guðsþjónustu var gestum boðið til kaffisamsætis í Vinaminni.