Í dag á Akraneskirkja 125 ára vígsluafmæli.
Síðari hluta ársins 1894 var valinn yfirsmiður yfir smíði Akraneskirkju. Fyrir valinu var Guðmundur Jakobsson, trésmiður frá Sauðafelli í Dölum. Hann var á þessum tíma búsettur í Keflavík, en þar var þá hafinn undirbúningur að smíði kirkju eftir forsögn Guðmundar. Sú kirkja var í öllum meginatriðum hliðstæð þeirri kirkju, sem Guðmundur fékk sóknarnefndinni í Garðasókn uppdrátt af og hún samþykkti að láta reisa á Skipaskaga. Hinn 9. mars 1895 var á Skaga gerður verksamningur milli sóknarnefndarinnar og Guðmundar. Þar var fyrirhugaðri kirkju lýst í megindráttum, ,,en að öðru leyti skal kirkjan vera sniðin eftir uppdrætti þeim og efnisáætlun, sem sóknarnefndin hefir séð og samþykkt“.
Timbur kom frá Noregi í ágústmánuði 1895 með skipinu Sleipner frá Mandal. Mánuði síðar kom svo viðbótarsending. Kirkjusmíðina hóf Guðmundur ásamt öðrum smiðum þann 9. september 1895 með úttekt á saumi í verslun Böðvars Þorvaldssonar og í byrjun næsta mánaðar var húsgrindin reist og kirkjan gerð fokheld seint í nóvembermánuði. Stóð svo smíðin óslitið fram um mitt sumar 1896. Verkinu öllu ,,smíði og förvun“ var að fullu lokið 5. ágúst 1896 samkvæmt úttekt sóknarnefndar á verki Guðmundar þann dag.
Vígsla kirkjunnar fór fram 23. ágúst 1896.
Undanfarið ár hefur mikið verið unnið að endurbótum á kirkjunni. En meðal annars hefur verið skipt um klæðningu utan á kirkjunni, komin er ný klæðning á norðurhlið þaksins og skipt hefur verið um stóran hluta glersins. Orgelið var einnig hreinsað fyrir um ári síðan og altaristaflan hreinsuð og löguð.
Alltaf þykir okkur jafn vænt um þessa fallegu kirkju sem við eigum. Til hamingju með daginn Skagamenn!