Biskup Íslands auglýsti eftir presti til þjónustu í Garða- og Saurbæjarprestakalli, Vesturlandsprófastsdæmi, og rann umsóknarfrestur út 25. maí s.l. Miðað var við að viðkomandi hæfi störf þann 1. ágúst.

Kjörnefnd kaus sr. Ólöfu Margréti Snorradóttur, til starfans og hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, staðfest ráðningu hennar.

Nýi presturinn
Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir er fædd á Ísafirði 1971.  Foreldrar hennar eru Fríða Hjálmarsdóttir, sjúkraliði, og Snorri Sturluson, fiskmatsmaður.

Sr. Ólöf ólst upp fyrstu árin í Önundarfirði en síðar á Húsavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1992, B.A-prófi í almennum málvísindum 1997 og starfaði í nokkur ár hjá Orðabók Háskólans. Kandidatsprófi í guðfræði lauk hún 2013. Hún vígðist til Egilsstaðaprestakalls 2014 og hefur starfað þar síðan. Þá lauk sr. Ólöf diplómanámi í sálgæslufræðum 2020.

Sr. Ólöf er fráskilin og á þrjár dætur.

Prestakallið
Garða- og Saurbæjarprestakall samanstendur af fjórum sóknum, Akranessókn með um 7.800 íbúa, Saurbæjarsókn á Hvalfjarðarströnd með rúmlega 140 íbúa, Leirársókn með rúmlega 300 íbúa og Innra-Hólmssókn með rúmlega 150 íbúa. Fjórar kirkjur eru í prestakallinu, Akraneskirkja, Hallgrímskirkja í Saurbæ, Leirárkirkja og Innra- Hólmskirkja.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta var auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera mætti að biskupafundur legði tillögur fyrir kirkjuþing sem kynnu að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

 

Við óskum henni innilega til hamingju og hlökkum til að fá hana til liðs við okkur.

 

(Frétt fengin af kirkja.is)