Kæru vinir.

Við höfum fengið að finna ilm af vori undanfarna daga hér sunnan heiða. Eflaust vorum við mörg farin að bíða óþreyjufull eftir slíkum ilmi. Að heyra fuglasöng og finna ylinn af sólargeislunum sem svo áþreifanlega hjálpa okkur að gleðjast yfir lífinu. Sólargeislunum sem vekja gróðurinn úr dvala svo sætur ilmurinn svífur fyrir vitum okkar og vekur upp minningarbrot. Og um leið kviknar vonin. Vonin um að þetta verði allt í lagi.

Eftir að samkomubann var rýmkað getum við nú glaðst yfir því að helgihald hefst aftur 17. maí í formi kyrrðarstunda í kirkjum prestakallsins. Fram að því verðum við með opna kirkju á mánudögum frá klukkan 17-18 í Akraneskirkju. Þar getur fólk kíkt við, sest við kertaljós og látið hugann reika í kyrrð, eða spjallað við þann prest sem stendur vaktina og verður á staðnum.

Síðustu vikur og mánuði höfum við upplifað tíma sem okkur hefði aldrei órað fyrir að við ættum eftir að lifa. Tíma sem hafa reynt verulega á og hafa sennilega ekki sagt sitt síðasta heldur. Við skulum þó ekki gleyma því að ennþá eigum við samferðafólk sem hefur upplifað heimsfaraldra áður. Fólkið sem fæddist snemma á 20. öldinni, og var sent að heiman fjarri ástvinum sínum vegna berklafaraldurs eða spönsku veikinnar. Þá voru engir samskiptamiðlar í boði. Það er varla hægt að ímynda sér hversu sár söknuðurinn hefur verið fyrir lítið barn að kveðja foreldri sitt um tíma vegna sóttkvíar sem gat varað í marga mánuði.

Nú eru mörg í þeim sporum að finna til kvíða og óöryggis eftir það sem gengið hefur yfir okkur síðustu mánuði. Mörg hafa misst tekjur og hafa áhyggjur af afkomu fjölskyldu sinnar. Önnur hafa áhyggjur af heilsufari sínu. Við skulum öll vera meðvituð um líðan annars fólks í kringum okkur, sýna umhyggju og vera varkár þessi misserin. Við skulum líka minnast þess að á eftir erfiðleikunum koma alltaf bjartari tímar, því þjáningin varir alltaf bara tiltekna stund.

Dal einn vænan eg veit,
verndar drottinn þann reit.
Allt hið besta þar blómgast hann lætur.
Þar er loftið svo tært,
þar er Ljósblikið skært,
þar af lynginu er ilmurinn sætur.
Filippía frá Brautarhóli/Hugrún

Guð gefi þér og þínum gleðiríkt vor framundan.

Sr. Jónína Ólafsdóttir