Fyrsta skólfustungan
að klukkuturninum í Görðum, var tekin að kvöldi 3. júlí 1955. Hana tók sr. Jón M. Guðjónsson en hann var frumkvöðull að byggingunni.  Í huga sr. Jóns átti hlutverk turnsins að vera það, að geyma klukkur sem hringt væri við greftranir og að þjóna sem minnismerki um kirkjuhald í Görðum allt frá fyrstu öldum. Gerði hann m.a. frumskissur af turninum og lagði fyrir sóknarnefnd.  Var samþykkt að ræða þessar framkvæmdir og kom Jóhann B. Guðnason fyrrverandi byggingarfulltrúi að verkinu og útfærði teikningar með sr. Jóni. Þann 8. maí 1955 samþykkti sóknarnefnd að heimila bygginguna og hófst undirbúningur þá þegar.

Við grunngröftinn
kom upp fjöldi mannabeina og taldi Jóhann Pjetursson byggingarmeistari að hann hefði getað greint 7-8 kistulög í jarðvegi áður en komið var niður á óhreyfða mold. Allar líkamsleifar voru settar í öskjur og jarðsettar á ný í garðinum. Þessar aðgerðir vöktu óhug hjá mörgum, voru umdeildar og mikið til umræðu meðal bæjarbúa á þessum tíma.

Vígslan
Föstudaginn 12. júlí 1958 var turninn síðan vígður af biskupi Íslands, dr. Ásmundi Guðmundssyni. Veður var fagurt en athöfnin ekki margmenn. Kirkjukórinn söng við opinn glugga á efstu hæð turnsins. Biskup flutti vígsluræðu sína og síðan var klukkum turnsins hringt í þrjár mínútur. Einnig talaði prófastur og rakti sögu Garða og Garðakirkju auk þess sem sóknarnefndarmaðurinn Jón Sigmundsson tók til máls og rifjaði upp minningar frá bernskuárum sínum í Görðum. Yfir þessari stund hvíldi helgi og friður og var öllum viðstöddum ógleymanleg.
Heimildir teknar upp úr bókinni „Akraneskirkja 1896-1996“ sem Gunnlaugur Haraldsson skrifaði. Myndin er úr smiðju Ásu Birnu Viðarsdóttur.