Akraneskirkja hefur opnað heimasíðu. Það var gert með viðhöfn í Safnaðarheimilinu Vinaminni eftir guðsþjónustu 1. október sl.
Heiðurskonan, Ragnheiður Guðbjartsdóttir, fyrrum formaður sóknarnefndar og starfsmaður kirkjunnar um árabil, ýtti á hnapp til að varpa síðunni út á veraldarvefinn.
Táknrænt var að fá Ragnheiði til að gera þetta. Hún er komin hátt á níræðisaldur og er af kynslóð sem ekki ólst upp við tölvur. Hún afhenti síðan formanni sóknarnefndar, Þjóðbirni Hannessyni, vefsíðuna til notkunar. Þar mættust fulltrúar tveggja tíma, hins gamla og nýja.
Akurnesingurinn, Bjarni Þór Ólafsson, á heiðurinn að uppsetningu og umbroti þessarar heimasíðu. Hann lagði mikla vinnu og alúð í þetta verk.
Á heimasíðu Akraneskirkju kennir ýmissa grasa. Sjón er sögu ríkari! Gjörið svo vel að kynna ykkur hana!