Þriðjudaginn 22. febrúar sl. var mikið um að vera í Akraneskirkju þegar fjórtán hjónavígslur fóru fram. Tilefnið var svokallað ,,drop in‘‘ brúðkaup sem boðið var upp á í tilefni þessarar skemmtilegu dagsetningar, 22.02.2022.

Drop in brúðkaup er hjónavígsla án mikils tilstands eða undirbúnings, athöfnin er einföld með stuttri hugleiðingu, ritningarlestri, bæn og blessun. En þrátt fyrir einfaldleikann voru athafnirnar hátíðlegar og einlægar, rammaðar inn með forspili og eftirspili organista. Að athöfn lokinni fóru hjónin yfir í Safnaðarheimilið Vinaminni, ásamt svaramönnum sínum og gestum, til að skrifa undir hjónavígslupappírana. Þar var boðið upp á hjónabandssælu og skálað í eplacider fyrir brúðhjónunum og framtíð þeirra.

Allir sem komu að athöfnunum eru sammála um að vel hafi tekist til og dagurinn hafi verið sannkallaður gleðidagur þó hann hafi verið langur, en fyrsta athöfnin var kl. 12 og sú síðasta kl. 20:30.

Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á drop in brúðkaup hér í prestakallinu en reynsla annarra kirkna, hérlendis og á Norðurlöndum er jákvæð og var hvatningin að því að bjóða upp á þetta til prufu. Drop in brúðkaupin eru hugsuð fyrir þau sem hafa lengi ætlað að gifta sig en ekki látið verða af því, t.d. vegna anna eða þau hafa miklað fyrir sér tilstandið. Samkomutakmarkanir síðustu tveggja ára hafa einnig haft áhrif á brúðkaupsáætlanir. Það voru fjórtán pör nú sem gripu tækifærið og gengi í heilagt hjónaband við látlausa en einkar hátíðlega og einlæga athöfn. Allt sem þau þurftu að gera var að útvega fæðingarvottorð og hjúskaparstöðuvottorð og bóka tíma umræddan dag.