Akraneskirkja var vígð þann 23. ágúst árið 1896. Veður var hið versta þennan dag, feikna útsynningur og hvassviðri af suðvestri og komst biskup Íslands, Hallgrímur Sveinsson, ekki yfir flóann til að annast vígsluna.

Sóknarpresturinn, sr. Jón Sveinsson, vígði kirkjuna í umboði biskups. Kirkjan var þéttsetin og gestir um 450 talsins.  Ekki er víst að kirkjan hafi rúmað allan þennan fjölda í sætum, en tæpast hefur nokkurn kirkjugest fýst þess að standa undir kirkjuvegg við þær veðuraðstæður sem voru þennan dag. 
Þetta var þó hátíðleg stund og öllum bar saman um að hin nýja kirkja væri glæsilegt guðshús.