Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því sem ég get breytt
Og vit til að greina þar á milli.

Verkefni kirkjunnar á þessum tímum er að bera hvern einstakling á bænarörmum og þess vegna viljum við hér í Akraneskirkju halda áfram úti vikulegum bænastundum okkar, þó þær verði með örlítið breyttu sniði eins og gefur að skilja.

Jesús sagði nefnilega – sumt verður ekki rekið út nema með bæn og við skulum hafa það í huga þessa dagana og muna eftir bæninni því hún getur gert kraftaverk fyrir sál okkar og líðan.  Við skulum reyna að nota þessa tíma sem framundan eru til að efla okkar andlega styrk. Finna frið í hjörtum okkar og leitast við að hugsa jákvætt. Því þá finnum við svo vel fyrir nærveru Guðs. Hann er nefnilega með okkur í okkar innri skynjun. Hann er þar til staðar og ef við opnum á þá skynjun þá finnum við enn frekar fyrir honum.

Við stöndum nú frammi fyrir flóknu verkefni enn eina ferðina. Og sumum fallast hendur. Sundrung getur skapast því mörg okkar eru hrædd. Hrædd um ástvini, hrædd um þau sem glíma við erfiða skjúkdóma, hrædd um okkur sjálf, hrædd um stöðu okkar og starfsöryggi. Og við skulum vera minnug þess að ótti getur skapað sundrung. Stöldrum því við á þessum tímum og spyrjum okkur að því á hvaða leið við erum. Á hvaða leið er ég – og hvers vegna. Hvert stefni ég?

Ein leið til að takast á við ótta er að ávarpa hann. Viðurkenna hann og segja – ég er hrædd. Fyrir suma og sennilega flesta getur þetta verið erfitt því öll erum við drifin áfram af sjálfsmynd okkar – innra egói, sjálfi og sjálfsvitund. En fyrsta skrefið í áttina að því að sigrast á óttanum og kvíðanum er að viðurkenna hann. Við skulum því vera meðvituð um það næstu vikur að hlúa að okkur sjálfum. Bæði að andlegri og líkamlegri líðan okkar, því það mun skila sér í bættri líðan. Og þetta á við um okkur öll því öll komum við til með að upplifa óöryggi næstu daga og vikur.

Þegar óttinn grípur um sig skulum við velja kærleikann. Á meðan við getum ekki vafið hvert annað örmum, skulum við finna leiðir til að vera kærleiksríkt faðmlag Guðs til náunga okkar.

Amen.