Í dag þann 15. nóvember er Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðaslysa. Þá er þeirra minnst um allt land sem látist hafa í umferðaslysum. Á þessum degi leiðum við jafnframt hugann að fórnfúsu og óeigingjörnu starfi viðbragðsaðila. Það er Slysavarnarfélagið Landsbjörg sem stendur fyrir minningardeginum.

Kirkjan stendur þétt við bak syrgjenda og tendrum við því ljós í dag og minnumst þeirra sem látist hafa í umferðarslysum á umliðnum árum.

Við biðjum Guð að lýsa ástvinum þeirra, styrkja þau og hugga. Blessuð sé minning þeirra. Við leiðum jafnframt hugann að starfi þess fólks sem gjarnan leggur líf sitt í hættu til að aðstoða annað fólk. Viltu vaka yfir öllum viðbragðsaðilum góði Guð, gefa þeim þrek og kjark til að halda störfum sínum áfram. Viltu jafnframt vaka yfir ástvinum björgunarfólks í öllum stéttum. Þú sem ert styrkur þeirra sem treysta á þig: Gef okkur trú til að leggja allt í þínar hendur og lát okkur minnast þess í öllum vandræðum og erfiðleikum, að þeim sem þig elska, samverkar allt til góðs.
Amen.

Í ár verður minningardagur Landsbjargar sniðinn að sérstökum aðstæðum í samfélaginu og í stað hinnar rótgrónu minningarstundar við þyrlupallinn við Landspítalann hefur árvekniátak í samfélaginu um umferðaröryggi staðið dagana 13. -15. nóvember. Að kvöldi minningardagsins kl. 19.00 munu einingar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, ásamt fleiri viðbragðsaðilum, standa fyrir táknrænum minningarathöfnum um allt land sem verður sýnt frá í beinni vefútsendingu á Facebook til að minnast fórnarlamba umferðaslysa. Hér á Akranesi munu konur úr Björgunarfélagi Akraness og Slysavarnardeildinni Líf standa fyrir minningarstund við Akratorg klukkan 19.00. Stundinni verður streymt á facebook.

Með blessunaróskum,
Sr. Jónína Ólafsdóttir