Eins og allir vita hefur ekki verið messað um nokkra hríð, meðan samkomutakmarkanir eru í gildi, annað safnaðarstarf hefur einnig legið niðri s.s. bænastundir, opið hús fyrir eldri borgara, sunnudagaskóli, barna og æskulýðsstarf og fermingarfræðsla. Nú hefur verið létt á takmörkunum er varða barnastarf og mun það hefjast samkvæmt dagskrá þriðjudaginn 24. nóvember.

Engu að síður er margt sem gerist í kirkjunni. Prestarnir sinna töluverðri sálgæslu, hún er mikið í símtalsformi um þessar mundir en einnig kemur fólk í viðtal og þá er grímuskylda. Hægt er að hafa samband við presta kirkjunnar ef óskað er eftir samtali. Upplýsingar má finna hér.

Útfarir fara fram í skugga takmarkanna. 30 manns mega vera í kirkjunni við útför og er þá prestur, tónlistarfólk og starfsfólk með í þeirri tölu. Við Akraneskirkju hafa einnig 10 gestir geta setið í Vinaminni og 10 í gamla Iðnskólanum. Flestir velja að streyma útför ásvina sinna og það er margir sem annars myndu koma sem fylgjast með útförinni á þann hátt. Steymt er á heimasíðu Akraneskirkju og má finna þær hér.

Aðrar athafnir, skírnir og brúðkaup eru heimil en þá með 10 manna hámarksfjölda. Margir hafa valið að bíða með skírnir en við vonumst eftir að flestir munu koma með börn til skírnar þegar tækifæri gefst. Hins vegar hafa verið mörg brúðkaup undanfarnar vikur, fámennar, einfaldar en fallegar athafnir. Oft á tíðum er fólk að staðfesta ást sína eftir margra ára eða jafnvel áratuga sambúð. Það er ótrúlega dýrmætt að vera með fólki á slíkum stundum. Brúðkaup í kirkju þarf nefnilega ekki að vera stór og fjölmenn athöfn, hún getur í raun verið eins einföld og fólk óskar eftir.

Að lokum má nefna að prestar prestakallsins hafa unnið myndabandefni sem birtist alla sunnudaga og hefur það fengið töluvert áhorf. Flestir fylgjast með á Facebook síðu Garða- og Saurbæjarprestakalls

Einnig er hægt að horfa á stundirnar hér á heimasíðu kirkjunnar.

Eins og staðan er núna er óljóst hvernig helgihaldi verður háttað um jólin, en vonandi verður hægt að messa með einhverju móti. Við hlökkum til að opna kirkjudyrnar á nýjan leik og taka á móti kirkjugestum.