Hinar fjórtan stöðvar krossferilsins í myndum Önnu G Torfadóttur eru á sýningu í Hallgrímskirkju í Saurbæ ásamt kross- og upprisumyndum Gunnars J. Straumland.

Fjórtán krossferilsmyndir í einni samræmdri myndröð eru með elstu viðfangsefnum kirkjulistarinnar. Slíkar myndaraðir gefur að líta  í nær öllum rómversk-kaþólskum kirkjum og kapellum í margskonar útfærslum. Sameiginlegt með þeim öllum er að þær sýna í raunsæismyndum eða með táknmáli áfangastaði og atvik á píslargöngu Krists.  Þessi myndaröð Önnu er unnin í dúkristu. Hún segir á hefðbundinn hátt söguna um krossferil Krists frá því að Pílatus dæmdi hann til dauða þar til líkami hans var tekinn af krossinum og lagður í gröf. Anna segir þessa sögu með skýrum og auðskiljanlegum hætti og nýtir hefðbundin tákn kristninnar og einnig  form og tákn víkingaaldar og keltneskrar menningar.

Myndaröðin er til stuðnings við hugleiðingar um þjáningar Krists í bænahaldi dymbilvikunnar og einkum á föstudaginn langa. Krossferillinn er hefðbundinn hluti í helgihaldi kaþólsku kirkjunnar. Þá ganga prestur og aðstoðarfólk hans milli myndanna og stjórna bænahaldi. Söfnuðurinn snýr sér í átt að þeirri mynd sem til hugleiðingar er í hverri viðstöðu.

Uppruni krossferilsmyndanna er frá því snemma á miðöldum hjá pílagrímum sem heimsóttu landið helga og vettvang píslarsögunnar. Elstu heimildir um krossferilsmyndir eru frá 5. öld. Hefðin breiddist út eftir að áhrifa píslarsögunnar tók að gæta í enn ríkari mæli í trúarlífi 12. og 13. aldar.

Sýningin í Hallgrímskirkju í Saurbæ minnir á að eins og trúin nærðist fyrst og fremst af  orðsins list einkum í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar hér á Íslandi, nærðist hún annarsstaðar í heiminum einnnig  af myndlist og tónlist. Í nútímanum nýtur trúin allra listforma sem þjóna henni.

Við viljum vekja athygli á því að Hallgrímskirkja í Saurbæ er opin alla daga frá kl. 9.00 – 18.00 og er öllum velkomið að koma og skoða myndirnar. Þær munu fá að vera áfram í einhvern tíma.