Þann 20. apríl síðstliðinn, hófu þau Björgvin Tómasson orgelsmiður og Margrét Erlingsdóttir störf við að hreinsa orgel Akraneskirkju. Var þetta viðamikið verk enda þurfti að taka hverja einustu pípu úr orgelinu og hreinsa hana hátt og lágt. Orgel Akraneskirkju er frá 1988 og smíðað af Bruno Christensen & Sønner. Það telur 32 raddir og því má áætla að þau Margrét og Björgvin hafi handleikið hátt í tvö þúsund pípur við sína vinnu. Mikilvægt er að hreinsa orgel á átján til tuttugu ára fresti. Verkinu lauk þann 15. maí og má segja að hljóðfærið sé nánast eins og nýtt. Mikill tærleiki fylgir þessari hreinsun og einnig stillti Björgvin hljóðfærið. Þessi „drottning“ hljóðfæranna, eins og orgelið er stundum kallað, prýðir kirkjuna og fyllir hana fögrum hljómum á á gleði- og sorgarstundum. Það er mál manna að hljómur „drottningarinnar“ í Akraneskirkju hafi ekki verið fallegri og tærari í háa herrans tíð.

Meistari Björgvin og frú Margrét