Á þeim tímum sem við höfum lifað undanfarið hefur margt breyst. Viðburðum hefur fækkað og mörgum þeirra hefur verið frestað, eða þeir jafnvel verið felldir niður.

Það hefur reynst mörgum þungt því margir þessir viðburðir hafa mikla og djúpa merkingu fyrir okkur mannfólkið. Þar eru skírnir engin undantekning. Það sem hefur verið einstaklega gleðilegt nú þegar lífið fór að vera örlítið hefðbundnara er að skírnum hefur fjölgað á nýjan leik. Og það sem hefur verið mjög algengt upp á síðkastið er að prestar hafa verið að mæta í afmæli til að skíra ársgömul börn. Það er gott og þakkarvert að verða vitni að því að fólki þyki mikilvægi skírnarinnar ekkert minna þrátt fyrir að lífið hafi tekið breytingum og að við höfum þurft að fresta viðburðum. Skírnin er alveg jafn merkileg og falleg stund þó börn séu orðin eldri. Í skírninni erum við að biðja Guð að taka barnið að sér á sérstakan hátt og bjóðum það velkomið í kirkjuna. Í skírninni sameinast ástvinir barnsins í bæn og biðja þess að framtíð barnsins verð björt og falleg og að barnið megi hafa allan þann stuðning sem það þurfi í verkefnum lífsins. Það segir sig því sjálft að það er aldrei of seint að láta skíra barn.

Til gamans má geta að það sem af er þessu ári hafa 68 börn verið skírð í prestakallinu og stefnir því í að metfjöldi barna verði skírður í Garða- og Saurbæjarprestakalli á þessu ári.

Vilt þú skíra barnið þitt? Hægt er að fá upplýsingar um netföng prestanna á heimasíðunni okkar www.akraneskirkja.is eða hringja í síma 433-1500.