Á dögunum kom út ný Sálmabók íslensku kirkjunnar, en að henni hefur verið unnið undanfarin ár. Er það sálmanefnd á vegum Biskupsstofu sem á veg og vanda að söfnun sálmanna og uppröðun sem og að afla tilskilinna leyfa höfunda og handhafa höfundarrétta.

Sálmarnir eru 795 talsins, margir þeirra hafa verið í eldri útgáfum sálmabókarinnar en þó nokkuð er um nýja sálma, eftir íslenska höfunda, eða íslensk þýðing við erlent lag líkt og í eldri útgáfum, er þá einstaka sálmur birtur með erlendum texta svo sem sálmur 246 Nun danket alle Gott, Nú gjaldi Guði þökk.

Af nýjum íslenskum sálmum má nefna sálm 378 Þar sem englarnir syngja sefur þú (Kveðja) eftir Bubba Morthens og sálm 22 Tveir englar eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og Sigurð Flosason en þeir eiga fleiri sálma í bókinni.

Nýja sálmabókin er handhæg og nýtist vel í bænar- og trúarlífi okkar, falleg og eiguleg bók sem gott er að hafa við höndina. Sálmunum er raðað á annan hátt en áður, eftir kirkjuárinu – jólasálmar til dæmis allar á sama stað – eftir messuliðum og svo trúarlífinu. Í lokakaflanum eru bænir í daglegu lífi, svo sem morgun- og kvöldbænir, og bænir við ýmsar kringumstæður, til að mynda við barnsfæðingu, í veikindum eða sorg. Fremst bókinni er messuformið og þá eru upphafsbæn, lokabæn, Faðir vor og trúarjátning í bókarkápunni.

Nýja sálmabókin hefur verið tekin í notkun í öllum kirkjum prestakallsins. Kirkjunefnd Akraneskirkju gaf  sálmabækur til Akraneskirkju. Þá gaf Kvenfélag Hvalfjarðarsveitar bækur í kirkjurnar í sveitinni og Tónleikanefnd Hallgrímskirkju í Saurbæ gaf einnig bækur þangað. Þökkum við þeim þessa höfðinglegu gjöf til kirknanna sem verður safnaðar- og helgihaldi öllu til blessunar.