Akraneskirkja á nokkur mjög falleg altarisklæði sem prýða altari kirkjunnar, eru þau í mismunandi litum eftir tíma kirkjuársins og jafnvel einstakra daga. Altarisklæðið sem þessa dagana prýðir altari Akraneskirkju eru afburðafalleg úr vönduðu svörtu og rauðu flaueli.  Það er útsaumað af Unni Ólafsdóttur í Reykjavík og gefið kirkjunni þann 17. júní 1944 af hjónunum Haraldi Böðvarssyni útgerðarmanni og Ingunni Sveinsdóttur konu hans.

Rauði liturinn er litur heilags anda og nándar Guðs, litur baráttu trúarinnar og píslarvættis, það er fórna sem menn færa vegna trúar sinnar. Rauður litur er notaður á hvítasunnunni, hátíðar heilags anda, og kristniboðsdaginn, einnig er hann tengdur minningardögum eins og þegar látinna er minnst. Rauða altarisklæðið mun því prýða altarið næstu tvo sunnudaga, það er á allraheilagramessu 6. nóvember og kristniboðsdaginn 13. nóvember.

Aðrir litir kirkjuársins eru hvítur eða gylltur, grænn, fjólublár og svartur.