STÓRVIÐBURÐUR Á VÖKUDÖGUM

Á Vökudögum, laugardaginn 5. nóvember nk. kl. 14 verður eitt fegursta verk tónbókmenntanna, Sálumessa (Requiem) eftir Gabriel Fauré flutt í Hafbjargarhúsinu á Breið. Flytjendur eru Kór Akraneskirkju ásamt einsöngvurunum Jónu G. Kolbrúnardóttur sópran og Hrólfi Sæmundssyni baritón, ásamt 8 manna strengjasveit. Una Sveinbjarnardóttir er konsertmeistari og leikur á einleiksfiðlu, Elísabet Waage leikur á hörpu og Steingrímur Þórhallsson á orgel.  Stjórnandi er Hilmar Örn Agnarsson.

Aðgangseyrir er kr. 3.500 og miðasala er við innganginn.

Gabriel Fauré (1845-1924) samdi Requiem á árunum 1887 til 1890. Sálumessa Fauré er með þekktustu verkum hans og hefur notið ómældra vinsælda frá því hún var frumflutt árið 1888. Sjálfur sagði Fauré sálumessu sína einkennast frá upphafi til enda af trú á eilífa hvíld í dauðanum. Ýmsir samtímamenn Fauré höfðu orð á því að í sálumessu hans væri ekki að finna ótta við dauðann og sumir kölluðu hana vögguvísu um dauðann. Það er einmitt þannig sem hann sá dauðann, sem frelsun fremur en kvalarfulla reynslu. Gabriel Fauré lést 4. nóvember 1924 og var Sálumessan m.a. flutt við útför hans.