Hátíðarguðsþjónustur á Hvítasunnudag

Hátíðarguðsþjónustur á Hvítasunnudag

Hátíðarguðsþjónusta kl. 11.00 í Akraneskirkju. Sr. Þóra Björg Sigurðardóttir þjónar, organisti er Sveinn Arnar Sæmundsson og félagar úr Kór Akraneskirkju leiða söng.

Hátíðarguðsþjónusta kl. 14.00 í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Sr. Þóra Björg Sigurðardóttir þjónar, organisti er Zsuzsanna Budai og Kór Saurbæjarprestakalls leiðir söng.

Verið hjartanlega velkomin!

Vináttunámskeið

Vináttunámskeið í Akraneskirkju.

Hefur barnið þitt einangrast?

Við í Akraneskirkju ætlum að bjóða upp á námskeið fyrir 8-10 ára börn dagana 2., 9., 16., 23. og 25. júní. Hver samvera stendur frá 14.30-16.00. Markmiðið er að börnin fái félagsskap í kirkjunni undir handleiðslu starfsfólks. Á dagskrá eru skemmtilegir leikir, útivera og helgistundir.
Námskeiðið endar á heimsókn frá KVAN þar sem fjallað verður um vináttu og vináttuþjálfun.

Ekkert kostar að taka þátt en takmarkaður fjöldi barna getur tekið þátt. Skráning fer fram á skráningarsíðu kirkjunnar.

Ævintýranámskeið í Akraneskirkju

Í sumar verður ævintýranámskeið í Akraneskirkju. Ævintýranámskeið er fyrir börn á aldrinum 6 – 9 ára. Námskeiðið verður 29. júní – 3. júlí og er milli kl.8 – 16. Umsjón með námskeiðinu hafa Þóra Björg prestur í Garða- og Saurbæjarprestakalli og Ásta Jóhanna guðfræðinemi. Á námskeiðinu er lögð áhersla á að starfsfólk taki þátt í dagskránni með börnunum og að dagskráin sé fjölbreytt og spennandi. Í lok námskeiðs fá öll börn verðlaun fyrir eitthvað sem þau eru góð í og er foreldrum boðið á sérstaka verðlaunaafhendingu.

Dæmi um ævintýrin sem við fáum að upplifa er wipe-out braut, ævintýraferð, óhefðbundnar íþróttir, náttfatapartý, hæfileikasýning,
vatnsrennibraut, pylsupartý, leikir, rugldagur og margt margt fleira.

Skráning fer fram á skráningarsíðu Akraneskirkju.

Nánari upplýsingar er hægt að fá í síma 433-1500 eða með því að senda póst á thora@akraneskirkja.is

Á eftir erfiðleikunum koma alltaf bjartari tímar


Kæru vinir.
Við höfum fengið að finna ilm af vori undanfarna daga hér sunnan heiða. Eflaust vorum við mörg farin að bíða óþreyjufull eftir slíkum ilmi. Að heyra fuglasöng og finna ylinn af sólargeislunum sem svo áþreifanlega hjálpa okkur að gleðjast yfir lífinu. Sólargeislunum sem vekja gróðurinn úr dvala svo sætur ilmurinn svífur fyrir vitum okkar og vekur upp minningarbrot. Og um leið kviknar vonin. Vonin um að þetta verði allt í lagi.

Eftir að samkomubann var rýmkað getum við nú glaðst yfir því að helgihald hefst aftur 17. maí í formi kyrrðarstunda í kirkjum prestakallsins. Fram að því verðum við með opna kirkju á mánudögum frá klukkan 17-18 í Akraneskirkju. Þar getur fólk kíkt við, sest við kertaljós og látið hugann reika í kyrrð, eða spjallað við þann prest sem stendur vaktina og verður á staðnum.

Síðustu vikur og mánuði höfum við upplifað tíma sem okkur hefði aldrei órað fyrir að við ættum eftir að lifa. Tíma sem hafa reynt verulega á og hafa sennilega ekki sagt sitt síðasta heldur. Við skulum þó ekki gleyma því að ennþá eigum við samferðafólk sem hefur upplifað heimsfaraldra áður. Fólkið sem fæddist snemma á 20. öldinni, og var sent að heiman fjarri ástvinum sínum vegna berklafaraldurs eða spönsku veikinnar. Þá voru engir samskiptamiðlar í boði. Það er varla hægt að ímynda sér hversu sár söknuðurinn hefur verið fyrir lítið barn að kveðja foreldri sitt um tíma vegna sóttkvíar sem gat varað í marga mánuði.

Nú eru mörg í þeim sporum að finna til kvíða og óöryggis eftir það sem gengið hefur yfir okkur síðustu mánuði. Mörg hafa misst tekjur og hafa áhyggjur af afkomu fjölskyldu sinnar. Önnur hafa áhyggjur af heilsufari sínu. Við skulum öll vera meðvituð um líðan annars fólks í kringum okkur, sýna umhyggju og vera varkár þessi misserin. Við skulum líka minnast þess að á eftir erfiðleikunum koma alltaf bjartari tímar, því þjáningin varir alltaf bara tiltekna stund.

Dal einn vænan eg veit,
verndar drottinn þann reit.
Allt hið besta þar blómgast hann lætur.
Þar er loftið svo tært,
þar er Ljósblikið skært,
þar af lynginu er ilmurinn sætur.
Filippía frá Brautarhóli/Hugrún

Guð gefi þér og þínum gleðiríkt vor framundan.

Sr. Jónína Ólafsdóttir

Klukkuturninn í Görðum

Ása Birna Viðardsdóttir

Fyrsta skólfustungan
að klukkuturninum í Görðum, var tekin að kvöldi 3. júlí 1955. Hana tók sr. Jón M. Guðjónsson en hann var frumkvöðull að byggingunni.  Í huga sr. Jóns átti hlutverk turnsins að vera það, að geyma klukkur sem hringt væri við greftranir og að þjóna sem minnismerki um kirkjuhald í Görðum allt frá fyrstu öldum.  Gerði hann m.a. frumskissur af turninum og lagði fyrir sóknarnefnd.  Var samþykkt að ræða þessar framkvæmdir og kom Jóhann B. Guðnason fyrrverandi byggingarfulltrúi að verkinu og útfærði teikningar með sr. Jóni. Þann 8. maí 1955 samþykkti sóknarnefnd að heimila bygginguna og hófst undirbúningur þá þegar.

Við grunngröftinn
kom upp fjöldi mannabeina og taldi Jóhann Pjetursson byggingarmeistari að hann hefði getað greint 7-8 kistulög í jarðvegi áður en komið var niður á óhreyfða mold. Allar líkamsleifar voru settar í öskjur og jarðsettar á ný í garðinum. Þessar aðgerðir vöktu óhug hjá mörgum, voru umdeildar og mikið til umræðu meðal bæjarbúa á þessum tíma.

Vígslan
Föstudaginn 12. júlí 1958 var turninn síðan vígður af biskupi Íslands, dr. Ásmundi Guðmundssyni. Veður var fagurt en athöfnin ekki margmenn. Kirkjukórinn söng við opinn glugga á efstu hæð turnsins. Biskup flutti vígsluræðu sína og síðan var klukkum turnsins hringt í þrjár mínútur. Einnig talaði prófastur og rakti sögu Garða og Garðakirkju auk þess sem sóknarnefndarmaðurinn Jón Sigmundsson tók til máls og rifjaði upp minningar frá bernskuárum sínum í Görðum. Yfir þessari stund hvíldi helgi og friður og var öllum viðstöddum ógleymanleg.
Heimildir teknar upp úr bókinni „Akraneskirkja 1896-1996“ sem Gunnlaugur Haraldsson skrifaði. Myndin er úr smiðju Ásu Birnu Viðarsdóttur.

 

Orgelhreinsun

Í vikunni hófst vinna við að hreinsa orgel Akraneskirkju. Orgelið, sem var smíðað af Bruno Christensen & Sønner Orgelbyggeri í Danmörku er orðið 32 ára gamalt og því kominn tími á yfirhalningu.

Sjá nánar hér

Heimahelgistund á Pálmasunnudag 2020

Nú í samkomubanni bryddum við upp á þeirri nýjung að bjóða upp á einfalt form af heimahelgistund. Stundin tekur um það bil 10-15 mínútur. Hægt er að lesa 1-3 ritningarlestra, biðja bænir, hlýða á predikun eða sögu fyrir börnin á youtube og sömuleiðis er hægt að hlusta á Kór Akraneskirkju syngja tvo sálma.

Hvetjum sem flesta til að kynna sér formið og reyna heimahelgistund þegar ekki er hægt að koma til kirkju.

 

Pálmasunnudagur2020

Nýir prestar mæta til starfa

sr. Jónína Ólafsdóttir
sr. Þóra Björg Sigurðardóttir

 

 

 

 

 

Sr. Jónína Ólafsdóttir og sr. Þóra Björg Sigurðurdóttir sem voru valdar til þjónustu við Garða og Saurbæjarprestakall í byrjun mars áttu sinn fyrsta vinnudag í dag, 1. apríl. Þá eru prestarnir orðnir þrír en sr. Þráinn Haraldsson er sóknarprestur.

Það eru sérkennilegir tímar til að mæta til starfa á nýjan vinnustað um þessar mundir. Ekki er helgihald í kirkjunni vegna samkomubanns og starfsfólk kirkjunnar er skipt í tvö teymi. Prestarnir þrír hafa því einungis hist á fjarfundum en næstu vikur verða notaðar til að skipuleggja starfið næsta vetur, en margt spennandi er framundan.

Prestar prestakallsins munu halda áfram að deila efni á facebook síðu kirkjunnar og einnig hefur verið stofnað Instagram undir heitinu Garða og Saurbæjarprestakall, það er spennandi vettvangur til að fylgjast með því sem er að gerast í kirkjunum í prestakallinu.

 

Vígsludagur Akraneskirkju 1896

Mynd þessi er trúlega tekin af Magnúsi Ólafssyni, verslunarstjóra og ljómyndara við vígslu Akraneskirkju. Spariklæddir kirkjugestir ganga úr kirkju.

 

Akraneskirkja var vígð þann 23. ágúst árið 1896. Veður var hið versta þennan dag, feikna útsynningur og hvassviðri af suðvestri og komst biskup Íslands, Hallgrímur Sveinsson, ekki yfir flóann til að annast vígsluna. Sóknarpresturinn, sr. Jón Sveinsson, vígði kirkjuna í umboði biskups. Kirkjan var þéttsetin og gestir um 450 talsins.  Ekki er víst að kirkjan hafi rúmað allan þennan fjölda í sætum, en tæpast hefur nokkurn kirkjugest fýst þess að standa undir kirkjuvegg við þær veðuraðstæður sem voru þennan dag. 
Þetta var þó hátíðleg stund og öllum bar saman um að hin nýja kirkja væri glæsilegt guðshús.