Messuhlé í júlí

Sími afleysingaprests er 898 0110

Opið í Vinaminni kl. 10-14 virka daga

 

 

Fermingarfræðsla 2019 – 2020

Fermingarfræðslan í Akraneskirkju hefst í ágúst 2019 með sumarnámskeiði. Öll ungmenni fædd 2006 sem skráð eru í Þjóðkirkjuna fá bréf á næstu dögum með upplýsingum um skráningu í fermingarfræðsluna.

Akraneskirkja býður þeim og foreldrum þeirra til kynningarfundar þriðjudaginn 7. maí kl. 18.

Við hlökkum til að sjá flest af fermingarbörnum komandi vetrar.

 

Fékkstu ekki bréf? Hægt er að lesa bréfið hér. 

 

Sr. Eðvarð Ingólfsson kveður Akranes

Eftir tæp 22 ár í þjónustu sem sóknarprestur á Akranesi þá lætur sr. Eðvarð Ingólfsson af störfum um næstu mánaðamót. Eðvarð vígðist til Skinnastaðar í Öxarfirði í febrúar 1996 en færði sig yfir á Akranes á aðventunni árið eftir. Það verður vissulega mikill missir af Eðvarði sem nú tekur að sér annars konar prestsþjónustu en áður af heilsufarsástæðum. Hann greindist með Parkinsonsjúkdóm fyrir 10 árum. Hann verður hér eftir sérþjónustuprestur.

“Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja þessum tímamótum“ segir Eðvarð. „Vissulega eru það vonbrigði að ég skuli vera með sjúkdóm sem háir mér að sumu leyti í lífi og starfi en ég á ekki annarra kosta völ en reyna að aðlagast honum. Gera eins gott úr hlutunum og hægt er. Ég verð bara að lifa við þetta. Til dæmis er hægt er að fara í Pollýönnu leik og hugsa til þess að þetta hefði geta orðið verra.“

Eðvarð segir þó að það sé óneitanlega svolítill léttir að láta af störfum á Akranesi enda fylgi því mikið annríki að Þjóna í svo fjölmennu prestakalli. „Það er líka öllum hollt að skipta um vettvang á starfsævinni,“ segir Eðvarð. „Ég mun, sem sérþjónustuprestur, sinna ýmsum þeim verkefnum sem mér verða falin.  Við hjónin höfðum byggt okkur hús í Hveragerði, í uppeldisbæ eiginkonunar, áður en þetta kom til. Tengdaforeldrar mínir eiga þar heima og mörg skyldmenni hennar, svo að við eigum þar talsvert bakland“.

Ritstörfin
Eðvarð hefur ásamt starfi sínu sem prestur verið afkastamikill rithöfundur og gefið út alls 9 barna- og unglingabækur og 6 ævisögur. Einnig starfaði hann í nokkur ár sem dagskrárgerðarmaður á Útvarpinu, fyrst á Rás eitt og síðan Rás 2. Einnig var hann ritstjóri tímaritsins Æskunnar á níunda áratuginum. Líklegt má því teljast að skrifin verði honum huglæg á komandi árum.

„Ég hef haft það fyrir venju að skrifa ýmis skemmtileg orðatiltæki eða tilsvör sem ég hef heyrt í starfinu. Maður kynnist mörgum og það er ýmislegt að gerast í svona fjölmennu prestakalli. Við prestar erum t.d oft beðnir um að flytja hugvekjur í jólahlaðborðum og við önnur tækifæri. En ég er einnig beðinn um að flytja frásagnir í léttum dúr. Þá kemur sér vel að hafa skráð hjá sér skemmtileg atvik.“

„Lærdómstími ævin er“
Í prestþjónustu, sem spannar aldarfjórðung, hefur Eðvarð verið farsæll í starfi.
„Maður kemst langt á því að reynast öðrum vel og vera góð manneskja. Þegar maður er nýbyrjaður í prestskap, þá er maður kannski upptekinn við að gera hlutina rétt. En það skiptir þó meira máli að vera sanngjarn og umburðarlyndur við aðra. Mikilvægt er að forðast hroka og vera trúr sinni samvisku og guðsvilja,“ segir Eðvarð. „Við prestarnir erum ekki á eigin forsendum í þjónustunni heldur látum trúnna leiða okkur. Erfiðast finnst mér í preststarfinu að tilkynna svipleg andlát. Maður venst því aldrei. Stundum þarf ekki að hafa mörg orð um hlutina, oft er gott að þegja með fólki. Það er nærveran og einlægnin sem skiptir mestu máli.“

Flutningar framundan
Eðvarð hlakkar til að flytjast til Hveragerðis.
„Ég kem örugglega til með að sakna Akranesbæjar. Þaðan eru margar góðar minningar. En ég er þannig gerður að ég hugsa yfirleitt ekki mikið um að sakna einhvers. En ég veit að það er líka gott fólk í Hveragerði. Það verður gott að búa nálægt Heilsuhælinu ef ég þarf að hressa mig við. Þar er líka gott bakarí enda er ég mikill sælkeri og mun nýta mér það,“ segir sr. Eðvarð Ingólfsson að lokum.

Viðtal sem birtist á vef Þjóðkirkjunnar, 22. mars síðastliðinn.

 

 

Fermingar 2020

Vorið 2020 verður fermt í Akraneskirkju eftirtalda daga:

22. mars kl. 10.30

29. mars kl. 10.30 og 13.30

5. apríl (Pálmasunnudagur) kl. 10.30 og 13.30

19. apríl kl. 10.30 og 13.30

 

Í lok apríl verða send út bréf til allra barna fædd 2006 sem skráð eru í Þjóðkirkjuna. Kynningarfundur fyrir væntanleg fermingarbörn og foreldra þeirra verður haldin í Vinaminni þriðjudaginn 7. maí kl. 18.30. Skráning í fermingarfræðsluna hefst í kjölfarið.

 

Sr. Eðvarð hverfur til nýrra starfa

Sr. Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur í Akraneskirkju og biskup Íslands hafa gert með sér samkomulag um að sr. Eðvarð takist á hendur ný verkefni í vígðri þjónustu kirkjunnar og hverfi frá núverandi þjónstu sem sóknarprestur Garðaprestakalls frá og með 1. apríl 2019.

Frá sama tíma fellur skylda til að halda úti prestssetri á Akranesi niður og hefur kirkjumálasjóður, sem er eigandi þess, hafið söluferli á eigninni.

 

Breyting á dagskrá

Sú breyting hefur orðið á fyrirbænastundum að þær verða framvegis á miðvikudögum kl. 12.15.  Áður voru þær á fimmtudögum.
Eftir stundina er boðið upp á léttar veitingar í Vinaminni eins og verið hefur.

Einnig hafa opnu húsin fyrir eldri borgara verið færð yfir á miðvikudaga en þau verða annan miðvikudag í mánuði.

Nýr geisladiskur Kórs Akraneskirkju

 

Kór Akraneskirkju gaf út geisladisk í desember og fagnaði því með útgáfutónleikum í Vinaminni laugardaginn 15. desember. Á diskinum má finna úrval kórlaga sem kórinn hefur flutt í gegnum tíðina. Diskurinn hefur ekki að geyma jólatónlist en allar aðrar árstíðir koma við sögu. Textar eru á íslensku og má finna ljóð og þýðingar eftir Akurnesingana Guðmund Kristjánsson, Halldór Hallgrímsson, Jón Gunnar Axelsson, Jónínu Björgu Magnúsdóttur og Sigurbjörgu Þrastardóttur.

Kórinn hefur fengið gott tónlistarfólk til liðs við sig og eru það Viðar Guðmundsson sem leikur á píanó, Jón Rafnsson kontrabassaleikari og svo eru það kórfélagarnir Kristín Sigurjónsdóttir sem leikur á fiðlu, Eyjólfur Rúnar Stefánsson sem leikur á gítar og einsöng syngur Halldór Hallgrímsson.

Upptökumaður var Håkan Ekman og um upptökustjórn sá Eyþór Ingi Jónsson, organisti við Akureyrarkirkju. Kolbrún Sigurðardóttir sá um hönnun umslags.

Hægt er að kaupa diskinn í verslununum Eymundsson og Omnis á Akranesi en einnig er hægt að panta eintök með því að senda töluvpóst á korakraneskirkju960@gmail.com

 

120 ára vígsluafmæli Akraneskirkju

IMG_2172

Akraneskirkja var þéttsetin sunnudaginn 21. ágúst þegar þess var minnst að 120 ár voru liðin frá vígslu hennar (23. ágúst 1896) og 30 ár frá vígslu  safnaðarheimilisins Vinaminnis.

IMG_2181

Séra Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, prédikaði en auk hennar þjónuðu við athöfnina prestar safnaðarins, þeir sr. Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur og sr. Þráinn Haraldsson sem kom til starfa í fyrra þegar nýtt stöðugildi prests var stofnað. Prófastur Vestlendinga, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, las guðspjall dagsins. Tveir úr sóknarnefnd, þau Kristján Sveinsson og Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir, lásu ritningarorð. Kór Akraneskirkju söng undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar organista. Allir sálmarnir tengdust kirkjunni og prestakallinu á einhvern hátt.

Eftir guðsþjónustu var gestum boðið til kaffisamsætis í Vinaminni.

Akraneskirkja fær stórgjöf

Hjónin, Ingólfur Árnason og Guðrún Agnes Sveinsdóttir, færðu Akraneskirkju stórgjöf í tilefni merkra tímamóta í kaffisamsætinu eftir hátíðarguðsþjónustu í kirkjunni.

   Í gjafabréfi sem þau afhentu sóknarpresti Akurnesinga og biskupi Íslands, yfirmanni Þjóðkirkjunnar, segir orðrétt:

   Í tilefni af 120 ára vígsluafmæli Akraneskirkju viljum við hjónin,
f. h. fyrirtækjanna Þorgeirs & Ellerts og Skagans, færa kirkjunni fjármuni að gjöf til minningar um föður minn, Árna Ingólfsson lækni, sem lést á þessu ári og tengdamóður mína, Unu Jónmundsdóttur sem lést 2013. Um leið viljum við minnast Harðar Pálssonar sem um árabil var stjórnarformaður hjá Þorgeiri & Ellert og starfaði mikið á vettvangi Akraneskirkju. Hann lést í fyrra.  

   Upphæðin sem hér um ræðir er 3 milljónir kr. og hefur hún nú þegar verið lögð inn á bankareikning kirkjunnar.

   Ég treysti sóknarnefnd og prestum þessa safnaðar til að ráðstafa þessum fjármunum á þann hátt að starfið í söfnuðinum eflist enn frekar.“

  Undir þetta ritar: Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Þorgeirs & Ellerts og Skagans.

Fv.: Ingólfur Árnason, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sr. Eðvarð Ingólfsson, Indriði Valdimarsson skrifstofustjóri Akraneskirkju og Guðrún Agnes Sveinsdóttir.
Fv.: Ingólfur Árnason, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sr. Eðvarð Ingólfsson, Indriði Valdimarsson skrifstofustjóri Akraneskirkju og Guðrún Agnes Sveinsdóttir.

Akraneskirkja á tímamótum

Ávarp sóknarprests, sr. Eðvarðs Ingólfssonar,
í  kaffisamsæti eftir messu, 21. ágúst 2016

Kæru gestir! Ég vil byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með 120 ára vígsluafmæli Akraneskirkju og 30 ára vígsluafmæli safnaðarheimilisins!

Í Akraneskirkju hafa margir lifað sínar dýpstu og helgustu stundir í gleði og sorg, stundir sem marka þáttaskil á ævileið.

Lesa áfram Akraneskirkja á tímamótum